Lífið

Tungu­mál berst fyrir til­vist sinni í skógum Sví­þjóðar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tyra Wallin biðlar til auðjöfra að leggja sér lið við að bjarga móðurmáli hennar frá útdauða.
Tyra Wallin biðlar til auðjöfra að leggja sér lið við að bjarga móðurmáli hennar frá útdauða. Vísir/Rafn

Djúpt inni í skógarþykkni sænsku Dalanna felur sig tungumál sem er nær óskiljanlegt Svíum. Í litlum afskekktum dal í um fjögurra tíma akstursfjarlægð frá Stokkhólmi tala um tvö þúsund manns tungumálið elfdælsku sem hefur að geyma forneskjuleg einkenni sem skáka jafnvel sjálfri íslenskunni.

Málvísindamenn og sérfræðingar í málinu eru á eitt sammála um að hana beri að skilgreina sem sitt eigið tungumál en málið er á barmi útdauða og sænska ríkið gefur áköllum íbúa um viðurkenningu og vernd engar gætur.

Málfræðingar hafa lýst málinu sem fjársjóði en það hefur lengst af verið álitið sænsk mállýska. Þetta þvertekur helsti sérfræðingur í málinu í dag.

„Samkvæmt einni rannsókn er jafnlangt á milli elfdælsku og sænsku og á milli elfdælsku og íslensku,“ segir Yair Sapir, málfræðingur og prófessor við Háskólann í Kristianstad á Skáni. Hann er einn helsti sérfræðingur í elfdælsku á Norðurlöndunum og gaf á dögunum út fyrstu elfdælsku málfræðibókina á ensku.

Hann segir rannsóknir sínar og annarra elfdælskuáhugamanna hafa leitt það í ljós að litlar sem engar breytingar hafi orðið á málinu frá fjórtándu öldinni til þeirrar síðustu. Málið varðveiti jafnvel eiginleika fornmálsins sem hurfu úr öllum öðrum norrænum málum áður en að hægt var að tala um norræn mál. Elfdælska hafi varpað nýju ljósi á áður vanþekkt atriði í norrænni málsögu.

Börn skömmuðust sín fyrir málið

Þrátt fyrir mikinn þrýsting frá sænsku lifði málið góðu lífi í afvikna Elfdalnum langt inn í tuttugustu öldina. Á bæjunum í kringum Kirkjubæinn, helsta þéttbýli dalsins, var elfdælska aðalmálið og börn töluðu ekki annað mál þegar þau settust á skólabekk, utanaðkomandi kennurum til mikils ama. Það þótti ekki sérlega fínt að tala „sveitarmálið“ og það þurfti að aga úr börnunum eins fljótt og unnt var.

Á níunda áratug síðustu aldar hætti íbúum þó að lítast á blikuna. Börnin þeirra kunnu ekki móðurmálið og ljóst var að það myndi gleymast ef ekki yrði brugðist við. Árið 1984 hóf Mora Tidning, stærsta dagblaðið í héraðinu, herferð sem bar yfirskriftina Rädda älvdalskan, björgum elfdælskunni. Hún leiddi til þess að félagið Ulum dalska, tölum elfdælsku, var stofnað með það að leiðarljósi að stuðla að vernd málsins. Það var blaðamaðurinn Björn Rehnström sem var forsprakki herferðarinnar þrátt fyrir að vera aðkomumaður og ekki alinn upp í dalnum.

Það var snemma morguns og svalt en bjart yfirlitum í Elfdal þegar Björn sótti undirritaðan á dvalarstað hans. Þokuna sem legið hafði yfir dalnum við komuna hafði létt og nú blasti hann við í allri sinni dýrð. Dalurinn er nokkuð þröngur með háum hryggjum sitt hvoru megin og skógi vaxnir bakkar Austurdalselfunnar glitruðu í morgunsólskininu. Förinni var heitið á gömlu lestarstöðina í Kirkjubænum sem Björn útskýrði státinn fyrir blaðamanni að kallaðist Tjyörtjbynn á máli bæjarbúa. Hann gerði þó heilmikinn krók á leið sína þangað því fyrst átti að fara í leiðsögn um bæinn.

Frá vinstri sitja Ing-Marie Bergman, Tyra Wallin og Björn Rehnström á skrifstofu verkefnisins Glamgleðį.Vísir/Rafn

Við keyrðum í gegnum iðnaðarhverfið austanmegin elfunnar þaðan sem stærsti hluti bæjarbúa hefur í sig og á. Meðfram veginum blöstu stærðar verksmiðjur og aðrar iðnaðarbyggingar af hinum ýmsu gerðum. Framleiðandi vírastrimlara hér og skíðabúnaðar þar. Lagerar byggingarverkamanna annars staðar og porfýrverkamanna enn annars staðar. Á árum áður var porfýrvinnslan stolt bæjarins en Karl Jóhann XIV Svíakonungur var til dæmis grafinn í fagurlega smíðaðri kistu úr porfýrsteini sem dreginn var á sleða alla leið frá Elfdal til Stokkhólms árið 1856 þar sem hann liggur nú í Riddarahólmskirkjunni.

Eftir stuttan bíltúr komum við á eins konar miðstöð elfdælsks máls í bænum. Tvílyft svartmálað timburhús frá snemma á síðustu öld sem hýsti eitt sinn lestarstöð bæjarins. Engir teinir liggja svo langt upp í skóginn í dag. Þar tóku á móti blaðamanni þær Ing-Marie Bergman og Tyra Wallin. Báðar tvær eru þær uppaldir Elfdælingar og elfdælskumælendur og eru góðar vinkonur og samstarfsaðilar þrátt fyrir rúmlega þriggja áratuga aldursbil. Ást þeirra á málinu og sú ábyrgð sem þær finna fyrir að bjarga því bindir þær sterkum böndum.

Þær eru báðir umsjónaraðilar verkefnisins Glamgleðį, málgleði, sem hlaut nýverið styrk frá sænska menningararfssjóðnum. Verkefnið gengur út á það að koma eldri og yngri elfdælskumælendum saman til að hin ungu geti erft málið náttúrulega af hinum eldri.

Elfdælska sé „svona eins og íslenska“

Elfdælska sem hefur verið töluð í dalnum í mörghundruð ár þróaðist, líkt og ríkissænskan, úr fornsænsku. Það tilheyrir fjölskyldu dalamála sem voru áður töluð í Dalahéraði Svíþjóðar þar til sænskan leysti sveitamálin að mestu leyti af hólmi á tuttugustu öldinni.

Það sem vakti athygli málfræðinga og var tilefni heimsóknar blaðamanns í dalinn var sérstaða elfdælskunnar innan sænskra mállýskna og skandinavískra mála í heild sinni. Sérstaðan er í raun svo mikil að málfræðingar dagsins í dag eru á eitt sammála um það að elfdælsku beri að skilgreina sem sitt eigið tungumál, til jafns við ríkismál Norðurlandanna.

Dalska, eins og dalabúar kalla hana, er hreint einstök blanda af ótrúlegri íhaldssemi og merkilegum nýjungum. Í henni eru varðveitt fyrirbæri sem voru horfin úr íslensku áður en að Íslendingasögurnar voru settar á blað.

Elfdalskirkja þykir alveg einstaklega falleg. Hún hefur staðið á þessum stað í miðju bæjarins frá því á fimmtándu öld þó ekki mikið sé eftir að kapellunni upprunalegu.Getty

Hér í Elfdalnum er það einnig öllum kunnugt að elfdælska er lík íslensku sökum sameiginlegrar forneskju málanna. Það er mjög algengt hér að fólk tali um að elfdælska líkist íslensku meira en sænsku sem nokkuð er til í. Í Elfdal segir fólk jafnvel aðspurt að elfdælska sé „svona eins og íslenska.“ Um dalinn ganga marga flökkusögur um einstakt, en því miður einhliða, samband Elfdals og Íslands.

„Margir Elfdælingar þekkja Ísland. Margir halda að við getum skilið hvert annað. Ég heyrði af Elfdælingi sem fór til Íslands og skildi ekki neitt í íslensku og var svolítið svekktur. Eitt kvöldið fór hann á barinn og fékk sér nokkra bjóra og allt í einu gat hann spjallað við Íslendingana,“ segir Ing-Marie.

Málfræði fornmálsins með sænskum syngjanda

Hún bendir á eina dæmisetningu sem notuð hefur verið til að sýna fólki hve lík elfdælska og hið ástkæra og ylhýra í raun eru: Um wittern rennum wįð ą̊ skaiðum. Flestir myndu eflaust skilja þessa setningu mjög greiðlega, jafnvel þó hún væri sögð en ekki skrifuð en á íslensku myndi þetta útleggjast sem um veturinn rennum við á skíðum. 

Í þessari setningu koma einnig fram dæmi um mörg þau einkenni sem gera elfdælsku svo ómótstæðilega málfræðingum og málaáhugamönnum og sömuleiðis erfiðari fyrir meðalsvíann, að skilja. Fyrsta sem grípur augað er myndin rennum en í elfdælsku beygjast sagnir í þremur persónum og tveimur tölum eins og í íslensku. Ig renner, du renner, an renner, wįð rennum, ið rennið, dier renna. Eins og ljóst ef af síðasta orði setningarinnar hefur elfdælska einnig varðveitt fallbeygingu fornmálsins að minnsta kosti að stórum hluta til. Í elfdælsku beygjast nafnorð í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en eignarfallið hefur skroppið saman í viðskeytið -es sem límt er aftan á þágufallsmynd orða.

Skaiðum er þágufall fleirtölu af orðinu fyrir skíði og þar sem einnig önnur merkileg breyting sem orðið hefur á löngum sérhljóðum. Langt íslenskt í eins og í íslenska orðinu skíði hefur klofnað, heitir það, og orðið að tvíhljóðinu ai. Það sama hefur gerst við langt ó sem hefur orðið að uo, eins og til dæmis í orðinu fuok, fólk. Þá eru það þessir einkennilegu krókar í orðunum wįð og ą̊, sem íslenskuð væru við og á. Þessir krókar tákna það að sérhljóðin eru nefjuð. Svolítið eins og í frönsku bon og matin.

Bókin er safn elfdælskra texta og smásagna sem grunnskólabörn í dalnum skrifuðu.Vísir/Rafn

Þessi nefjuðu hljóð verða yfirleitt til þegar n eða m í lok atkvæðis hverfur og lætur ummerki um sig eftir í formi nefjunar á sérhljóða. Slíka nefjun hefur ekkert norrænt mál í dag og þetta vakti furðu margra málfræðinga heimsins. Hvernig gat elfdælska haft nefjuð hljóð þar sem ekkert sýnilegt n eða m fannst í fornmálinu?

Við því höfðu íslenskir fræðimenn svarið. Á tólftu öld ritaði nefnilega nafnlaus málfræðingur ítarlega ritgerð um framburð síns máls, íslensku. Hann er gjarnan kallaður fyrsti málfræðingurinn og ritgerð hans fyrsta málfræðiritgerðin. Samkvæmt honum hafði íslenska fornmálið og sömuleiðis samnorræna fornmál allra Norðurlandanna nefjuð hljóð. Þetta einkenni sérhljóða var horfið úr íslensku en er varðveitt í hinum afskekkta Elfdal enn þann dag í dag. Ekki einu sinni nágrannadalamállýskurnar hafa varðveitt þessi nefjuðu hljóð.

„Þessi hljóð höfðuð þið misst þegar Eddurnar voru skrifaðar,“ segir Björn glottandi og er greinilega hreykinn.

„Sumir vísindamenn segja að elfdælska byrjaði að skilja sig frá hinum norrænu málunum áður en hægt var að tala um norræn mál yfirhöfuð. Í kringum 500 eftir Krist eða þar um bil,“ bætir hann svo við.

Lífseig en á undir högg að sækja

En hver er staða elfdælskunnar í dag í raun og veru? Tala dalbúar málið sín á milli eða á þetta merkilega mál bara heima í gömlum ritgerðum og draumórum málvísindamanna? Blaðamaður spurði Elfdælinga.

Allt í allt tala um tvö þúsund manns málið í dalnum sjálfum en rúmlega þúsund elfdælskumælendur búa á víð og dreif um Svíþjóð. Áður fyrr töluðu allir dalbúar málið en ýmislegt hefur breyst síðan fyrir um hundrað árum eða svo, þegar sænskan fór að gera áþreifanlega vart við sig í þessum afskekkta kima landsbyggðarinnar.

„Hingað í bæinn hafa margir flutt. Fyrir Hagström-verksmiðjuna og fólk sem vann í skógarhöggsgeiranum. Sömuleiðis komu prestar, lögreglumenn og kennarar á tuttugustu öldinni. Þess vegna hafði sænskan meiri ítök í bænum,“ segir Björn. Hin heimsfrægu Hagström-gítarar eiga einmitt uppruna sinn í bænum og á aðalgötu bæjarins er stór og mikil stytta af Albin Hagström, stofnanda fyrirtækisins, með harmónikku í hendi.

Lengst af var þó aðra sögu að segja af smáþorpunum í kringum Kirkjubæinn svokallaða.

„Í smáþorpunum var elfdælska málið. Í kirkjunni í bænum talaði fólk sænsku sín á milli og afneituðu elfdælsku. Það er hræðilegt fyrirbæri en algjörlega náttúrulegt. Það er það sem gerist þegar landsmálið ber á dyr. Á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar var skólabörnum refsað líkamlega fyrir að tala elfdælsku og að sjálfsögðu uxu þau þá úr grasi og vildu ekki tala elfdælsku. Í dag er fólk að verða stolt af málinu á nýjan leik,“ segir Björn.

Austurdalselfurinn rennur lygn í gegnum dalinn. Myndin er tekin í þorpinu Ą̊sär ofarlega í Elfdal.Vísir/Rafn

„Við eigum langa leið framundan en við getum borið það saman við olíutankbíl. Það tekur fimm kílómetra að hægja nóg á sér til að geta beygt. Við erum einhvers staðar á löngu beinu leiðinni en nálgumst beygjuna,“ segir Björn með tungutaki sem er einkennandi fyrir sænsku landsbyggðina. Merkingin sem undirritaður leggur í þessa myndlíkingu Björns er sú að það þurfi mikla undirbúningsvinnu og það taki langan tíma áður en að áþreifanlegar breytingar fara að gera vart við sig, svo sem þær að fjöldi móðurmálshafa stækki eða að börn fari að tala elfdælsku sín á milli í ríkari mæli. En ef jarðvegurinn er frjór fara hlutirnir að breytast til hins betra hratt.

Hin tvítuga Tyra ólst upp í Elfdal og hefur elfdælsku að móðurmáli. Hún rifjar upp að í bekknum hennar í grunnskóla hafi verið krakkar sem töluðu sín á milli á elfdælsku og jafnvel við kennara en að mál kennslustofunnar og skólalóðarinnar hafi að mestu leyti verið sænska. Í vinahópnum sé sænska einnig oft notuð þar sem ekki allir tali elfdælsku reiprennandi. Þó séu margir í hópnum sem hafa sterka taug til málsins og vilji nota það eins mikið og hægt er.

Hún segir það þó sífellt koma sér á óvart hversu lífseigt málið er þrátt fyrir allt mótlætið.

„Á síðasta ári vann ég í versluninni ICA og var að vinna á afgreiðsluborðinu. Dagarnir voru langir og mér leiddist stundum bakvið borðið þannig að ég gerði smá tilraun. Ég byrjaði allar samræður við kúnna á elfdælsku og það kom mér virkilega á óvart hversu margir svöruðu mér á elfdælsku. Hefði ég byrjað samræðuna á sænsku þá hefði kúnninn svarað á sænsku,“ segir Tyra Wallin.

Viðurkenningin sárþráða

Þremenningarnir eru með háleita drauma um samfélag þar sem elfdælska er mál bæjarins og á allra vörum. Þau eru tilbúin til og ætla sér að berjast af öllum mætti til þess að gera það að veruleika, en á því er hængur. Það er nefnilega þannig að samkvæmt yfirvöldum í Stokkhólmi er elfdælska ekki viðurkennt minnihlutamál og þar af leiðandi fá verkefni eins og Ing-Marie og Tyru ekkert ríkisfjármagn.

Á skiltum, byggingum og á heimasíðu Elfdals fá bæði opinberlega viðurkenndu mál sveitarfélagsins jafnan sess: sænska og suðursamíska. Í sveitarfélaginu búa fimm samískar fjölskyldur með eitt barn á grunnskólaaldri en vegna viðurkenningar máls þeirra sem minnihlutamáls í Svíþjóð er ríkinu skylt að tryggja því menntun og aðra þjónustu á móðurmáli þess. Ekkert slíkt er í boði fyrir tungumálið sem kennt er við sveitina. Þessu ætla þau að breyta.

Þetta skilti býður ferðalanga og heimamenn velkomna í dalinn. Það var sett upp árið 2021 eftir langt stríð við yfirvöld.Älvdalens kommun

„Viðurkenningin snýst ekki bara um peninga,“ segir Ing-Marie. Hún segir þó að peningarnir kæmu varðveislu- og málverndarstarfinu mjög vel og gerði þeim kleift að stórefla starfsemi sína í þágu málsins. Viðurkenning sem minnihlutamál í Svíþjóð myndi nefnilega þýða að málverndarsinnar eins og Ing-Marie, Tyra og Björn gætu sótt um styrki frá Evrópusambandinu auk þess sem sænsku ríkisstjórninni yrði gert að styðja við málið.

„Heldur verður hún einnig eins konar bætur fyrir eldra fólkið sem hefur þurft að þola marga áratugi af kúgun. Loksins fengju þau viðurkenningu fyrir það að málið þeirra sé fullgilt tungumál og staðfestingu á því að þau þurfi ekki að skammast sín fyrir að vera Elfdælingar,“ segir Ing-Marie.

Fyrsta mál á dagskrá, fengju þau sárþráðu viðurkenningu yfirvalda, væri að setja á stofn leikskóla fyrir börn í dalnum þar sem kennsla færi fram á elfdælsku.

„Ungu börnin tala elfdælsku heima en koma á leikskólann og glata henni. Börnunum með elfdælsku að móðurmáli er dreift um mismunandi leikskóla og fá því ekki tækifæri til að tala saman á elfdælsku,“ segir hún.

„Það mikilvægasta er að sjálfsögðu ekki að fá málið viðurkennt heldur að bjarga því frá útdauða. En viðurkenningin væri stórt skref í áttina að því,“ segir Björn.

Kvikmyndir, tónlistarmyndbönd og dráttarvélar

Verkefni Ing-Marie og Tyru er ekki það fyrsta sinnar tegundar. Málverndarsinnar hafa staðið fyrir fjöldanum öllum af framtökum til að reyna að vekja áhuga unga fólksins á elfdælsku. Vinsæl sænsk teiknimynd hefur til að mynda verið talsett á elfdælsku og þrjátíu elfdælingar á bilinu 12 ára og allt upp í nírætt tóku þátt í verkefninu sem var einnig lokaverkefni þriggja nemenda við Háskólann í Borlänge.

Í dalnum er einnig mikil menning meðal unglinga fyrir því að gera upp gamla bíla. Þeir kalla þá epur, eintala epa. Bílarnir, sem eru oft gamlir volvóar, sjást á rúntinum um dalinn á öllum tímum sólarhringsins og eru auðþekkjanlegir sökum stóra rauða viðvörunarþríhyrningsins sem límdur er í bakglugga allra epanna. Þessa bíla má nefnilega skrá sem dráttarvélar samkvæmt sænskum lögum en þau kveða á um það að þá megi ekki keyra á meira en nemur þrjátíu kílómetrum á klukkustund.

„Við hugsuðum: við þurfum að ná til unga fólksins, hvað gerir það? Jú, það rúntar um í epunum. Og hvaða tónlist hlustar það á? Jú, það hlustar á þessa tónlist og sérstaklega á einn tónlistarmann, Eddie Medusa, og textarnir hans eru ekki alltaf voða „hreinir.“ Við völdum lag, þýddum það og fengum leyfi til að framleiða tónlistarmyndband og við gerðum það. Það er á Spotify og Youtube og hefur fengið yfir hundrað þúsund hlustanir,“ segir Ing-Marie.

Annað sem Björn segir að hafi stóraukið áhuga barna á málinu er styrkjakerfi sem skógræktarfélag sveitarfélagsins greiðir undir. Börn í níunda bekk grunnskólans í Elfdal geta fengið styrk upp á sex þúsund krónur sænskar, sem nemur um 80 þúsund íslenskum, ef þau standast hæfnipróf í elfdælsku.

„Það hefur verið mjög hvetjandi fyrir krakkana. Sex þúsund krónur sænskar er mjög há upphæð þegar maður er fimmtán ára. Það borgar fyrir mikið af bensíni í epurnar,“ segir Ing-Marie.

„Ég hitti lítinn strák, kannski sex ára, og hann sagði: „Ig wil åvå diem-dar peninnga.“ Ég vil fá þessa peninga þannig ég ætla að tala elfdælsku,“ segir Björn. Það hefur einnig verið talað um að hækka upphæðina þar sem hún hefur staðið í stað síðan 2009 og sex þúsund krónur sænskar voru talsvert meira virði þá en í dag. Það segir Ing-Marie vera næsta mál á dagskrá hjá sér. Upphæðin í dag svarar til tæplega 80 þúsund íslenskra króna.

Hluti af þessu nýja verkefni Ing-Marie og Tyru er að koma elfdælsku á samfélagsmiðla unga fólksins. Áður en að sú vinna gat hafist var þörf á smá nýyrðasmíð. Orðið fuorker sem þýðir áhrifavaldur var til dæmis smíðað úr sögninni fuorka sem þýðir að hrífa eða sannfæra. Annað nýyrði sem berst fyrir tilvist sinni um þessar mundir er wavelslaverduos fyrir snjallsíma. Samkvæmt þremenningunum mætti þýða það lauslega sem labbrabbdós. Blaðamaður spurði þau hvort þetta orð hefði hlotið sömu örlög og mörg sniðug íslensk nýyrði en Björn sór fyrir það að hann hefði að minnsta kosti heyrt einn ungan strák nota orðið.

Góð teikn um framtíðina

Ing-Marie og Tyra trúa því heitt að elfdælskan muni bjargast og ýmis teikn eru á lofti um að henni bíði bjartari framtíð. Til að mynda stórjókst hlutfall ungfall barna sem töluðu elfdælsku heima frá árinu 2008 til ársins 2018.

Árið 2008 var það kannað mörg ungmenni töluðu elfdælsku og niðurstaðan var sú að 45 börn upp að fimmtán ára aldri töluðu málið. Önnur könnun var svo gerð árið 2018 og þá voru börnin 145. Frá og með síðasta hausti hafa grunnskólanemar einnig haft tækifæri til að taka elfdælsku sem valfag. Ing-Marie segir að hún hafi verið himinlifandi þegar hún sá að 170 börn hefðu sótt um að læra elfdælsku en kennslan fer fram utan skólatíma.

Börnin höfðu þó meiri áhuga á því að vita hvers vegna í ósköpunum ungur maður sem talaði við þau dönsku með uppgerðum sænskum hreim væri hefði komið í afskekkta dalinn þeirra heldur en hefðbundna elfdælskunáminu þeirra og tókst því misvel að halda þeim við efnið.Vísir/Rafn

Blaðamaður fékk að fara með þeim stöllum í grunnskólann í Elfdal, eða Övdalsskauln, og fylgjast með tveimur kennslustundum, fyrst börnum í fyrsta, öðrum og þriðja bekk og svo fjórða og fimmta. Í báðum tímanum var spilið Djiet ą̊ spilað sem framleitt var af Ulum dalska og reynir á dölskuhæfni barnanna. Leikurinn gengur út á það að skiptast á að útskýra fyrirbæri og hluti sem maður dregur á korti og á meðan giskar liðsfélagi manns á það sem lýst er á elfdælsku. Nafn spilsins þýðir einmitt Gettu á.

Krakkarnir eru auðvitað með mismikla elfdælskukunnáttu og því þarf að laga kennslustundirnar að því en kennsla fer fram reglulega í elfdælskri stafsetningu, málfræði og bókmenntum og hópur þeirra sem kjósa að sækja tímana, eða eru látin gera það af foreldrum sínum, vex með hverju árinu.

Bréf til Mark Zuckerberg og fundir með þingmönnum

Það heyrist vel á Elfdælingum að þeir eru bjartsýnir á framtíð máls þeirra. Þrátt fyrir að sænska ríkisstjórnin hafi ekki enn veitt baráttu þeirra neina viðurkenningu er taug dalabúa til málsins sterk og þau taka það ekki í mál að tunga þeirra hljóti sömu örlög og aðrar norrænar mállýskur sem og minnihlutamál um alla Evrópu sem urðu flestar undir ríkismálinu á tuttugustu öldinni.

„Við Elfdælingar erum mjög þrjóskir. Við erum útsjónasamir, við gefumst aldrei upp. Við vitum að dropinn holar steininn. Við vitum að bráðum mun okkur takast að fá elfdælsku viðurkennda og bjarga henni,“ segir Ing-Marie Bergman full stolti.

Nýjasta uppátæki Ing-Marie og Tyru var að skrifa bréf til ýmissa auðugra einstaklinga í Svíþjóð og annars staðar þar sem þær vilja vekja þeim athygli á stöðu elfdælskunnar og falast eftir fjárstuðningi við verkefni þeirra en ef fram vindur sem horfir þarf Tyra burt að hverfa vegna þess að ekki er nægt fjármagn til að halda henni ráðinni fram yfir áramót. Meðal þeirra sem bréf hafa verið póstlögð til eru Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, og Roger Akelius, forríkur sænskur frumkvöðull og málaunnandi.

Ing-Marie merkti bréfið með fagurskrift í von um að það veki athygli Marks, eða þess sem flokkar póstinn hans.Vísir/Rafn

Meiri vonir binda þær þó við ferðalag sem stefnt er á til Stokkhólms upp úr mánaðarmótum. Þangað munu þær Ing-Marie og fara á fund menningararfssjóðsins sem styrkir verkefnið þeirra en þær ætla sér mun meira úr ferðinni en það eitt. Þær höfðu samband við forstöðumann Mála- og alþýðumenningarstofnunar Svíþjóðar og fara á fund hennar en sú stofnun kemur til með að ráðleggja ríkisstjórninni varðandi ákvörðun þeirra um að veita elfdælsku stöðu minnihlutamáls. Þá eiga þær einnig fundi með ýmsum flokkum og stjórnmálamönnum á sænska þinginu.

Þær vonast til þess að þetta geri útslagið og tryggi elfdælsku stöðu minnihlutamáls og það er ekki bara málfræðinganna vegna sem þær og aðrir dalbúar heyja þessa baráttu. Elfdælingar þekkja til Íslands og ást okkar á tungumálinu okkar og ástríðu fyrir varðveislu þess. Þeir segjast sækja innblástur hingað og vonast til að Íslendingar sýni þeim samstöðu.

„Elfdælska er hluti af samsemd minni. Sænska hefur ekki sömu merkingu fyrir mér. Það er mér mjög mikilvægt að málið mitt, sem hefur verið með mér alla tíð, lifi af. Ef það deyr, deyjum við,“ segir Tyra Wallin.

„Það er mikilvægt að erfa börnin þennan fjársjóð sem málið er. Það má ekki hverfa af yfirborði jarðar. Ef við glötum málinu glötum við allri menningunni sem því fylgir,“ segir Ing-Marie Bergman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×