Innlent

Stefán endur­ráðinn til fimm ára

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stefán Eiríksson er fyrrverandi borgarritari og lögreglustjóri.
Stefán Eiríksson er fyrrverandi borgarritari og lögreglustjóri. Vísir/Arnar Halldórsson

Stjórn Ríkisútvarpsins hefur ákveðið að endurráða Stefán Eiríksson í stöðu útvarpsstjóra til fimm ára. 

Þetta kemur fram í frétt á vef miðilsins. Stefán var ráðinn útvarpsstjóri í janúar 2020 og tók til starfa 1. mars sama ár. 

Í janúar í fyrra greindi Stefán sjálfur frá því að hann hygðist hætta sem útvarpsstjóri þegar skipunartíma hans lyki. Fyrr í mánuðinum sagði hann aftur á móti frá því að hann væri hættur við að hætta og hann væri reiðubúinn til að gegna starfinu áfram en skipunartímabili hans lýkur í byrjun næsta árs.

Samkvæmt 11. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, skal útvarpsstjóri ráðinn til fimm ára í senn og er heimilt að endurráða hann einu sinni. Fram kemur í frétt RÚV að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. hafi  á fundi sínum í síðustu viku ákveðið að nýta sér þá heimild, eftir að hafa óskað eftir og farið yfir greinargerð útvarpsstjóra þar sem hann gerði stjórn grein fyrir áherslum sínum og framtíðarsýn til næstu ára, fengi hann til þess umboð stjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×