Sport

HM í bak­garðs­hlaupum: Mari hleypur með rifinn lið­þófa | „Veit ekki hvað bíður mín“

Aron Guðmundsson skrifar
Ofurhlauparinn Mari Järsk er ein af fulltrúum Íslands á heimsmeistaramóti landsliða í bakgarðshlaupum sem hefst klukkan 12:00 í dag. 
Ofurhlauparinn Mari Järsk er ein af fulltrúum Íslands á heimsmeistaramóti landsliða í bakgarðshlaupum sem hefst klukkan 12:00 í dag.  Hulda Margrét

Heims­meistara­mót lands­liða í bak­garðs­hlaupum hefst í dag og Ís­land sendir vaska sveit til leiks. Þeirra á meðal er stuð­pinninn Mari Järsk sem lætur rifu í lið­þófa ekki standa í vegi fyrir þátt­töku sinni á mótinu.

Fimm­tán full­trúar Ís­lands hefja keppni á heims­meistara­mótinu í Elliða­ár­dalnum klukkan tólf á morgun og verður sýnt frá hlaupinu í beinni út­sendingu á Vísi. Rúm­lega sex­tíu lönd senda lið til leiks á mótið, hvert lið mun hlaupa í heima­landi sínu. Allt snýst þetta um hvaða land og hlaupari ná að tóra lengst í því að klára rétt rúm­lega 6,7 kíló­metra hring á innan við klukku­tíma á hverjum klukku­tíma en ræst verður út í hringina á heila tímanum.

Ís­lands­met­hafinn Mari Järsk er ein af full­trúum Ís­lands á heims­meistara­móti helgarinnar. Hún er klár í slaginn en mætir þó meidd til leiks.

„Ég er ó­trú­lega vel stemmd fyrir þessu en er vel meidd líka. Er að glíma við mikil meiðsli. Ég er sem sagt með rifinn lið­þófa en ætla samt að reyna níðast á mér og sjá hversu langt ég næ að komast á meðan að ég glími við þessi ömur­legu meiðsli. Ég er samt ó­trú­lega vel stemmd. Svo snýst þetta bara um það hversu góð ég verð í því að trekkja mig í gagn fyrir hvern hring. Það kemur í ljós. Ég get ekki í­myndað mér hvað mín bíður. Fólk er að spyrja mig hversu langt ég ætla. Ég bara get ekki vitað hversu langt ég kemst. Ég gæti verið dottin út eftir hundrað kíló­metra. Ég bara hef ekki hug­mynd. En mér finnst ég samt eiga það skilið að vera hérna og fá að vera með.“

Líkt og reynslan hefur sýnt okkur getur keppni staðið yfir í nokkra sólar­hringa og mun lands­liðs­fólk Ís­lands fá að hreiðra um sig í Elliða­ár­stöð og þar er Mari búin að gera allt klárt. Fatnaður, rétt næring, bæti­efni. Allt skipu­lagt eftir kúnstarinnar reglum og meira að segja verð­laun þegar á­kveðnum á­fanga er náð í hlaupinu. Allt þetta má sjá í inn­slaginu hér fyrir neðan.

Þetta heims­meistara­mót hefur hið minnsta tví­þætta merkingu fyrir hlauparana. Því ekki snýst þetta bara um að ís­lenska lands­liðið nái að hlaupa eins marga hringi og það getur. Því það er einnig gul­rót fyrir þann hlaupara sem að hleypur flesta hringi. Þeir hlauparar sem hlaupa flesta hringi fyrir sitt lands­lið munu tryggja sér þátt­töku­rétt á heims­meistara­móti ein­stak­linga í bak­garðs­hlaupum sem fer fram í októ­ber á næsta ári.

„Þetta er ó­geðs­lega flókið fyrir okkur en á sama tíma get ég sjálf sagt frá minni reynslu frá þessu fyrir­komu­lagi. Ég keppti á þessu móti fyrir tveimur árum síðan og þá leið mér ekki eins og mér líður núna. Við erum með frá­bært lið. Allir þessir hlauparar eru vinir mínir. Mér þykir ó­geðs­lega vænt um þetta fólk og ég hlakka til að fara hlaupa með þeim. Ég er alveg viss um að við verðum öll hérna saman í því að reyna að koma okkur öllum sem lengst. Sem lið trúi ég því að við getum komist lengra en áður hefur verið gert. Það er þó spurning hvort að við náum að slá Ís­lands­metið. Það er mjög löng vega­lengd sem við verðum að hlaupa til að slá það.“

Heims­meistara­mót lands­liða í bak­garðs­hlaupum hefst klukkan tólf í dag. Þá hefur ís­lenska lands­liðið keppni í Elliða­ár­dalnum og sýnt verður beint frá keppninni á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×