Tuchel var ráðinn í vikunni sem nýr þjálfari enska karlalandsliðsins og tekur hann við keflinu af Gareth Southgate sem sagði upp eftir EM í sumar. Lee Carsley hefur stýrt liðinu tímabundið og mun klára Þjóðadeildina áður en Tuchel tekur við taumunum um áramótin.
Enska knattspyrnusambandið gaf út að það hefði rætt við tíu þjálfara varðandi möguleikann á að taka við liðinu en tveir enskir þjálfarar segjast ekki hafa fengið símtal.

Sean Dyche, þjálfari Everton, var spurður út í málið á blaðamannafundi í vikunni og segist ekki hafa fengið símtal. Hann segir best að Englendingur stýri liðinu en styður þó við bakið á Tuchel.
„Ég held að flestir hafi viljað enskan þjálfara, það er almenn skoðun á meðal fólk innan fótboltans sem ég hef rætt við, og almenningur sammælist því, að því er virðist,“ segir Dyche sem hélt að Eddie Howe, þjálfari Newcastle, væri vænlegur kostur.
„Það var rætt um hann, réttilega. Hann er maður sem ég sá fyrir mér sem næsta þjálfara Englands.“
Eddie Howe var vissulega sterklega orðaður við stöðuna en kveðst ekki hafa heyrt frá sambandinu.
Ég fór ekki í viðtal vegna starfsins. Það var enginn frá enska knattspyrnusambandinu sem hafði samband við mig, sagði Howe á blaðamannafundi fyrir leiki helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.