Fótbolti

Ó­sáttur við ó­sam­ræmið og segir Skandinavíu í her­ferð gegn VAR

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Åge Hareide skilur ekki afhverju dómarinn var ekki sendur í skjáinn.
Åge Hareide skilur ekki afhverju dómarinn var ekki sendur í skjáinn. Vísir/Hulda Margrét

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var enn ósáttur með dómgæsluna er hann mætti á blaðamannafund eftir 4-2 tap liðsins gegn Tyrkjum í Þjóðadeild UEFA í kvöld.

Tyrkneska liðið fékk tvær vítaspyrnur í leiknum, í bæði skiptin eftir að boltinn hafði farið í hönd varnarmanns íslenska liðsins. Íslensku leikmennirnir vildu svo sjálfir fá vítaspyrnu síðar í leiknum þegar Merih Demiral virtist verja með höndinni á marklínu, en ekkert var dæmt.

„Dómarinn skoðar þetta ekki og þeir í VAR-herberginu biðja hann ekki einu sinni um að fara að skoða þetta,“ sagði Hareide í blaðamannafundinum, augljóslega enn pirraður yfir dómnum.

„Þetta er mjög skrýtið. Þegar við skoðuðum þetta í tölvunni okkar á bekknum sjáum við að hann ver með hendinni á marklínunni. Það þarf að gera eitthvað í reglunum um hvað er hendi og hvað ekki því þetta var skrýtið. Hvernig getum við spilað fótbolta ef við vitum ekki hvaða reglur eru í gildi.“

„Stundum fer boltinn í höndina og þá er dæmt víti, en stundum fer boltinn í höndina og þá er ekki dæmt víti. Ég bað dómarann um að skoða þetta því þetta var ekki rétt í mínum huga.“

Skandinavísk herferð gegn VAR

Þá segir Hareide að í ljósi þess að Tyrkir hafi fengið tvö víti fyrir svipuð atvik hafi það verið sérstaklega súrt að fá ekki eitt stykki vítaspspyrnu í leiknum.

„Já það er mjög súrt. Það er herferð gegn VAR í Skandinavíu. Svíarnir vilja ekki fá VAR og í Noregi vilja þeir losna við þetta. Ég skil það vel því það er ekkert samræmi. Þeir skoða atvikin þegar Tyrkir fá víti, en þeir skoða ekki þegar við viljum fá víti og mér þykir það mjög furðulegt.“

„Og við höfum lent í þessu áður. Það var atvikið með Ronaldo þegar við spiluðum á móti Portúgal og atvikið á móti Slóvakíu þar sem dómarinn skoðar ekki allt dæmið. Þetta er mjög sorglegt fyrir okkur því við erum að leggja mikið á okkur í þessum leikjum á móti sterkum andstæðingum.“

„Ég er mjög vonsvikin akkúrat núna,“ sagði þjálfarinn að lokum.


Tengdar fréttir

„Mér finnst þetta bara kjaftæði“

„Ég skil bara ekki hvernig þetta féll ekki okkar megin í dag,“ segir Orri Óskarsson eftir óhemju svekkjandi 4-2 tap Íslands gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld, í Þjóðadeildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×