Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Tyrklandi á Laugardalsvellinum í kvöld í síðasta heimaleik sínum í þessari Þjóðadeild. Síðustu tveir leikirnir verða á útivelli í næsta mánuði.
Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska liðsins, ræddi leikinn við Ágúst Orra Arnarson.
„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Við eigum harma að hefna eftir síðasta leik á móti þeim á útivelli. Við töpuðum þar,“ sagði Jóhann Berg. Tyrkir vann 3-1 úti í Tyrklandi í síðasta mánuði.
Hafa átt í erfiðleikum
„Tyrkirnir hafa átt í erfiðleikum þegar þeir mæta hingað á Laugardalsvöllinn og vonandi getum við haldið því áfram,“ sagði Jóhann.
Íslenska liðið þarf ekki að hafa miklar áhyggjur ef liðið spilar eins og í seinni hálfleiknum á móti Wales á föstudaginn.
„Þú vilt alltaf spila þinn besta fótbolta eins og við gerðum í seinni hálfleik á móti Wales. Vonandi getum við tekið það inn í þennan leik og þá erum við í ansi góðum málum,“ sagði Jóhann.
Jóhann haltraði af velli í Wales leiknum en er í lagi með hann?
Töluvert betri en ég hélt
„Já, já. Ég er töluvert betri en ég hélt. Vonandi verður bara allt í standi á morgun [í kvöld],“ sagði Jóhann. Jóhann verður með nýjan mann við hlið sér á miðjunni því Stefán Teitur Þórðarson verður í banni.
„Það kemur bara maður í manns stað eins og það hefur alltaf gert í þessu liði. Þetta er hópur og við þurfum alltaf á þessum hóp að halda. Það eru alltaf menn að fara í leikbann eða meiðast. Það eru allir klárir og hver sem spilar þarna á eftir að eiga frábæran leik,“ sagði Jóhann eins og sjá má hér fyrir neðan.