Fótbolti

Sýndu Kol­beini hve góður hann hefur verið: „Er með marga vini í kringum sig“

Sindri Sverrisson skrifar
Hareide segir að Kolbeinn Finnsson hafi verið minntur á hve vel hann stóð sig gegn Tyrkjum og Englendingum.
Hareide segir að Kolbeinn Finnsson hafi verið minntur á hve vel hann stóð sig gegn Tyrkjum og Englendingum. Getty/Ahmad Mora

Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide segir að bakvörðurinn Kolbeinn Finnsson hafi fengið góðan stuðning frá reyndum liðsfélögum eftir að hafa átt slæman dag í leiknum við Wales í Þjóðadeildinni á föstudaginn.

Ísland mætir Tyrklandi í seinni leik landsleikjagluggans, vonandi á morgun en það veltur á stöðunni á Laugardalsvelli á leikdegi og er mögulegt að leiknum verði frestað.

Ísland gerði 2-2 jafntefli við Wales á föstudaginn en lenti 2-0 undir í fyrri hálfleik og átti Kolbeinn sérstaklega erfitt uppdráttar.

Í umfjöllun á Stöð 2 Sport eftir leikinn sagði Kári Árnason að Kolbeinn hefði sýnt af sér mikinn „sofandahátt“ í báðum mörkum Wales.

Hareide kippti Kolbeini af velli eftir fyrri hálfleikinn, sem og Willum Willumssyni, og setti Loga Tómasson og Mikael Egil Ellertsson inn á. Logi stal senunni og bjó til bæði mörk Íslands, og ljóst að hann byrjar gegn Tyrkjum í kvöld.

Hareide sagði á blaðamannafundi í dag að Kolbeinn myndi þó ekki láta leikinn gegn Wales sitja í sér heldur læra af honum.

„Ég talaði við Kolbein einan um þetta og ég talaði líka við allt liðið. Við sýndum Kolbeini góða hluti sem hann gerði í Tyrklandi og gegn Englandi á Wembley. Svona lagað gerist stundum hjá leikmönnum.

Fótbolti er leikur mistaka. Hver einasta manneskja gerir mistök. Kolbeinn er góður leikmaður, lærir af þessu og kemur til baka sterkari,“ sagði Hareide og bætti við:

„Þetta er ekkert vandamál. Hinir leikmennirnir sýndu honum stuðning eftir leikinn. Við erum með marga reynda leikmenn sem töluðu við hann. Hann veit alveg að hann er ekki einn heldur með marga vini í kringum sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×