Aron var leiðtogi íslenska landsliðsins innan vallar um árabil, þegar það fór á EM 2016 og HM 2018 undir stjórn Heimis, og Heimir fékk Aron svo til þess að elta sig til Katar þegar hann tók við Al Arabi eftir HM.
„Hann er svona týpa sem að stígur alltaf upp, sama hvað á dynur. Stríðsmaður. Ég gat alltaf notað hann sem fyrirmynd, leikmaður sem var liðinu alltaf svo mikilvægur. Ekki kannski besti fótboltamaðurinn en alltaf sá mikilvægasti í liðinu,“ sagði Heimir á blaðamannafundi í Aþenu í gær, fyrir leikinn við Grikkland í Þjóðadeildinni í kvöld.
„Ég er að leita að svona karakterum. Við þurfum líka tæknilega getu, en einhvern sem bregst við og lætur til sín taka þegar vandi steðjar að. Maður getur litið til hans og hann mun rísa upp og segja: „Látið mig um þetta, ég er alveg óhræddur.“ Á erfiðum augnablikum þá þarftu svona menn. Við erum með fullt af svona náungum en við þurfum að efla sjálfstraustið þeirra,“ sagði Heimir.