Ísland gerði þá 2-2 jafntefli en það er stutt í næsta leik sem er líka á Laugardalsvellinum þegar Tyrkir koma í heimsókn á mánudagskvöldið.
Stefán Teitur Þórðarson og Jón Dagur Þorsteinsson fengu báðir gult spjald frá bosníska dómaranum Antoni Bandic sem þýðir að þeir eru komnir í leikbann. Þeir taka því ekki þátt í Tyrklandsleiknum.
Þetta voru einu gulu spjöldin sem íslensku leikmennirnir fengu í leiknum. Daníel Leó Grétarsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru líka báðir á spjaldi og fara því í leikbann við næsta gula spjald.
Stefán Teitur fékk spjaldið á 28. mínútu fyrir brot á Neco Williams. Stefán Teitur var mjög reiður út í liðsfélaga sinn, Willum Þór Willumsson, sem tapaði boltanum á undan en Stefán braut síðan á velskum leikmanni í skyndisókn.
Jón Dagur fékk sitt spjald á 32. mínútu eftir samskipti sín við hinn velska Brennan Johnson. Johnson fékk einnig spjald.