Fótbolti

Van Dijk fékk rautt spjald í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk gengur hér af velli eftir að hann fékk rauða spjaldið í Búdapest í kvöld.
Virgil van Dijk gengur hér af velli eftir að hann fékk rauða spjaldið í Búdapest í kvöld. Getty/Roy Lazet

Virgil van Dijk var rekinn af velli í kvöld þegar Holland og Ungverjaland gerðu 1-1 jafntefli í Þjóðadeildinni. Þjóðverjar unnu Bosníumenn á sama tíma og Svíar gerðu 2-2 jafntefli.

Van Dijk fékk sitt annað gula spjald á 79. mínútu en Ungverjar voru þá 1-0 yfir eftir mark frá Roland Sallai á 32. mínútu.

Hollendingum tókst að jafna metin manni færri fjórum mínútum síðar en markið skoraði Denzel Dumfries eftir stoðsendingu frá Cody Gakpo.

Stuttgart maðurinn Deniz Undav skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleik í 2-1 útisigri Þjóðverja á móti Bosníu. Mörkin komu á 30. og 36. mínútu, Florian Wirtz lagði upp fyrra markið en Maximilian Mittelstaedt það síðara.

Bosníumenn minnkuðu muninn með marki Edin Dzeko á 70. mínútu en tókst ekki að jafna metin.

Yasin Ayari og Ken Sema komu Svíum í 2-0 á útivelli á móti Slóvakíu en David Strelec minnkaði muninn rétt fyrir hálfleik og tryggði síðan heimamönnum 2-2 jafntefli með sínu öðru marki á 72. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×