Fótbolti

Sverrir Ingi minnist Baldocks: „Þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
George Baldock lék lengi með Sheffield United.
George Baldock lék lengi með Sheffield United. getty/Mike Egerton

Íslenski landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason minntist samherja síns hjá Panathinaikos, Georges Baldock, í færslu á Instagram. Hann segir að sorgin vegna fráfalls hans sé óbærileg.

Baldock fannst látinn í sundlaug við heimili sitt í Grikklandi í gær. Hann var 31 árs. Baldock gekk í raðir Panathinaikos í sumar þar sem hann var samherji Sverris og Harðar Björgvins Magnússonar.

„Við erum öll niðurbrotin og í áfalli. George okkar, liðsfélagi og vinur okkar var og er enn hluti af fjölskyldunni. Þegar meðlimur hennar er skyndilega tekinn í burtu er eins og hluta af okkur vanti og mun alltaf vanta,“ skrifaði Sverrir á Instagram í dag.

„Á tímum sem þessum glata orð merkingu sinni. Orð fá ekki lýst harmi okkar og sorg vegna fráfalls bróður okkar. Góða ferð okkar elskaði George. Þú munt alltaf, alltaf eiga stað í hjarta okkar.“

Baldock hafði aðra Íslandstengingu því hann lék með ÍBV sumarið 2012, sem lánsmaður frá MK Dons. Hann lék sextán leiki fyrir Eyjaliðið í Pepsi-deildinni og skoraði eitt mark, gegn Grindavík á útivelli.

Baldock hafði leikið með gríska landsliðinu frá 2022 en hann var gjaldgengur í það þar sem hann átti gríska ömmu. Hann lék tólf landsleiki fyrir Grikkland.

Sverrir og félagar hans í íslenska landsliðinu búa sig nú undir leikina gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni. Íslendingar mæta Walesverjum á föstudaginn og Tyrkjum á mánudaginn. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×