Fótbolti

Stöðvuðu Bayern sem missti Kane meiddan af velli

Sindri Sverrisson skrifar
Aleksandar Pavlovic skoraði glæsimark gegn Leverkusen í dag.
Aleksandar Pavlovic skoraði glæsimark gegn Leverkusen í dag. Getty/Christina Pahnke

Leverkusen stöðvaði sigurgöngu Bayern München í stórleik þýsku 1. deildarinnar í fótbolta í dag, þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli.

Bayern hafði unnið fyrstu fjóra deildarleiki sína undir stjórn Vincent Kompany, auk bikarleiks gegn Ulm og 9-2 Meistaradeildarsigurs gegn Dinamo Zagreb, en liðinu tókst ekki að leggja Leverkusen að velli í München í dag.

Robert Andrich kom Leverkusen yfir á 31. mínútu með afar góðu skoti rétt utan teigs, eftir stutta sendingu Granit Xhaka í kjölfar hornspyrnu.

Hinn tvítugi Aleksandar Pavlovic jafnaði hins vegar metin með stórkostlegu skoti af um 25 metra færi, efst í hægra hornið, þó að Lukas Hradecky væri ekki langt frá því að verja.

Bayern komst næst því að skora sigurmark í seinni háflleik þegar Harry Kane átti frábæra fyrirgjöf á Serge Gnabry en Gnabry skaut fyrst í stöng og svo í þverslána.

Kane var svo skipt af velli vegna meiðsla á 86. mínútu sem gæti verið áhyggjuefni fyrir Bayern.

Bayern er enn á toppi deildarinnar, með 13 stig, en Leverkusen er með 10 stig. Leipzig er á milli þeirra með 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×