Sport

Á­tján ára hjól­reiða­kona í lífs­hættu

Sindri Sverrisson skrifar
Muriel Furrer er sérfræðingur í fjallahjólreiðum en hún var að hjóla á blautri götu þegar slysið varð.
Muriel Furrer er sérfræðingur í fjallahjólreiðum en hún var að hjóla á blautri götu þegar slysið varð. Getty/Luc Claessen

Ástandi svissnesku hjólreiðakonunnar Muriel Furrer er lýst sem „mjög krítísku“ eftir að hún slasaðist alvarlega á höfði á heimsmeistaramóti í Sviss.

Furrer er 18 ára og var að keppa í ungmennaflokki þegar hún féll illa til jarðar. Slysið varð aðeins tíu kílómetrum frá heimili Furrer í Egg ZH.

Flogið var með Furrer í þyrlu á sjúkrahús og biðja stuðningsmenn hennar nú fyrir henni og fjölskyldu hennar í skilaboðum á Instagram, við síðustu færslu sem Furrer setti þar inn. Þar sagðist hún vera á leið á HM og beið greinilega spennt eftir keppninni.

Óljóst er hvernig slysið nákvæmlega varð en mikil rigning hafði verið á svæðinu.

Sandra Mäder, móðir svissneska hjólreiðamannsins Gino Mäder sem lést 26 ára gamall í slysi á Tour de Suisse 2023, er ein af þeim sem sett hafa inn skilaboð á Instagram:

„Ég finn svo rosalega til með fjölskyldunni. Verið sterk. Elsku Furrer-fjölskylda, ég sendi ykkur hlýjar hugsanir. Ég veit svo vel hvernig ykkur hlýtur að líða núna. Hlúið vel hvert að öðru. Ég óska ykkur mikils styrks til að komast í gegnum þennan tíma,“ skrifaði Mäder.

Aðstandendur heimsmeistaramótsins ítrekuðu í morgun að Furrer væri enn þungt haldin. Mótið heldur þó áfram og mun það hafa verið ákveðið í samráði við fjölskyldu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×