Innlent

Sænsk glæpa­gengi sendi fólk til Ís­lands

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir fundaði með norrænum ráðherrum og tæknirisum í Uppsölum í gær.
Guðrún Hafsteinsdóttir fundaði með norrænum ráðherrum og tæknirisum í Uppsölum í gær. Vísir/Vilhelm

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir sænsk glæpagengi hafa sent fólk til Íslands til þess að fremja afbrot.

Guðrún fundaði með dómsmálaráðherrum Norðurlandanna og fulltrúum stórra samfélagsmiðlafyrirtækja í Uppsölum í Svíþjóð í gær. Til umræðu var aukning í skipulagðri glæpastarfsemi á Norðurlöndunum og hvernig hún beitir samskiptaforritum til að fá börn og ungmenni til liðs við sig. Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Aukin beiting eggvopna og innfluttir glæpamenn

Guðrún Hafsteinsdóttir segir í samtali við TV2 að beiting eggvopna sé að færast í aukana á Íslandi.

„Í fyrsta sinn erum við einnig að sjá glæpastarfsemi sem er tengd því sem er að gerast hér í Svíþjóð. Það eru glæpahópar í Svíþjóð sem hafa sent fólk til Íslands til að fremja afbrot,“ segir Guðrún.

Norrænu ráðherrarnir hafa gefið samfélagsmiðlarisunum Snapchat, Tiktok, Meta og Google tvo mánuði til að leggja fram áætlun um hvernig þau hyggist bregðast við notkun glæpahópa á þjónustu sinni.

Annar fundur í Kaupmannahöfn

Annar fundur ráðherranna og tæknirisanna verður svo haldinn í Kaupmannahöfn að tveimur mánuðum liðnum þar sem ætlast er til þess að nákvæmari viðbragðsáætlun verði útfærð.

„Þar búumst við við að við getum farið ítarlegar í það hvað þau geti gert og þá sjáum við um regluverkið og löggjöfina,“ hefur TV2 eftir Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×