Enski boltinn

Kærir Richarlison og sakar hann um illa með­ferð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Richarlison hefur leikið á Englandi síðan 2017.
Richarlison hefur leikið á Englandi síðan 2017. getty/David Rogers

Fyrrverandi aðstoðarmaður brasilíska fótboltamannsins Richarlisons hefur kært hann og sakar hann um illa meðferð.

Reginaldo Pereira var rekinn sem aðstoðarmaður Richarlisons og hefur nú ákveðið að kæra Brassann fyrir ósanngjarnan brottrekstur. Hann krefst rúmlega sautján milljóna punda frá Richarlison.

Pereira fylgdi Richarlison þegar hann flutti frá Brasilíu til Englands er hann samdi við Watford 2017.

Pereira segist hafa sætt illri meðferð af hendi Richarlisons. Hann hafi látið hann vinna langa vinnudaga, ekki fengið frí og verið reglulega skammaður, meðal annars af föður Richarlisons. Pereira segir að hann hafi fengið sífellt fleiri verkefni hjá Richarlison og hann þurfti meðal annars að sjá um gæludýrin hans.

Á endanum var Pereira rekinn og stendur eftir slyppur og snauður, án vinnu og til að bæta gráu ofan á svart fór konan hans frá honum.

Tottenham keypti Richarlison frá Everton fyrir sextíu milljónir punda fyrir tveimur árum. Hann hefur ekki spilað með Spurs í síðustu tveimur leikjum liðsins vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×