Það er löngu ljóst að markaðir eru að breytast mikið með þeirri gífurlegu þróun sem á sér stað í stafrænni tækni og staða margra fyrirtækja á markaði hefur gerbreyst með því að verslun og þjónusta er í auknum mæli stafræn. Þá eru að verða til nýir markaðir og ný þjónusta með tilkomu gervigreindar og tölvutækni. Þá hafa stór alþjóðleg tæknifyrirtæki komið sér þannig fyrir á markaði að þeirra þjónusta er oft nánast nauðsynleg, svo sem stóru leitarvélarnar frá Microsoft, Google og Apple og önnur sérhæfðari fyrirtæki sem byggja á gögnum og tækni, eins og verslunarrisinn Amazon.
Í 11. gr. samkeppnislaganna er lagt bann við hvers konar misnotkun á markaðsráðandi stöðu og felur ákvæðið í sér að eitt eða fleiri fyrirtæki saman geta ekki misnotað stöðu sína. Fyrirtæki telst vera markaðsráðandi þegar það getur hagað starfsemi sinni án þess að taka tillit til viðskiptavina sinna eða keppinauta. Getur þessi staða birst með hárri markaðshlutdeild, efnahagslegum styrk, eða til dæmis með tæknilegum yfirburðum.
Evrópusambandið hefur á undanförnum árum unnið að því að setja reglur [1] um starfsemi stórra tæknifyrirtækja, svokallaðra „Gatekeepers“, sem eru stórfyrirtækin sem veita alls kyns grunnþjónustu á netinu, meðal annars leitarvélaþjónustu, „app store“ þjónustu og skilaboðaþjónustu. Eiga þessi kerfi það sameiginlegt að teljast ómissandi aðstaða í skilningi samkeppnislaga. Regluverkið kemur til viðbótar við samkeppnislöggjöfina og tók það gildi 2. maí 2023. Frá þeim tíma hafa fyrirtækin þurft að upplýsa Framkvæmdastjórnina um sína starfsemi svo að hægt væri að ákvarða hvort að þau falli undir reglurnar. Þá eru reglurnar þegar komnar til framkvæmda gagnvart þeim sem taldir eru falla undir þær. Um þessar mundir er regluverkið í skoðun hjá EES-EFTA ríkjunum til upptöku í EES-samninginn.
Fyrirtæki telst vera markaðsráðandi þegar það getur hagað starfsemi sinni án þess að taka tillit til viðskiptavina sinna eða keppinauta.
Reglurnar eiga að fela í sér að þau fyrirtæki sem undir þær falla eru bundin hegðunarskilyrðum, sem eru ekki efnislega ólík þeim viðmiðum sem gilda skv. 11. gr. samkeppnislaga. Sem dæmi um þær skyldur sem á stórfyrirtækjunum hvíla eru:
- Aðgangur samkeppnisaðila og viðskiptamanna að kerfum og allri ómissandi aðstöðu sem viðkomandi fyrirtæki býr yfir.
- Að veita notendum þjónustu aðgang að gögnum og niðurstöðu af gagnaleit við notkun á þjónustunni.
- Veita auglýsendum aðgang að gögnum og þjónustu þannig að hægt sé að bera saman mismunandi gögn og þjónustu.
- Gera notendum og neytendum mögulegt að auglýsa þjónustu og ljúka samningsgerð utan kerfa hinna markaðsráðandi aðila.
Sem dæmi um þau skilyrði sem hvíla á fyrirtækjunum og þau eru skuldbundin til að gera ekki eru:
- Að gera eigin þjónustuframboði ekki hærra undir höfði á sínum kerfum en annarra samkeppnisaðila.
- Koma ekki í veg fyrir að fyrirtæki geti boðið upp á þjónustu sína utan kerfa viðkomandi stórfyrirtækis.
- Þau mega ekki koma í veg fyrir að forritum sé eytt út, eða þá að samkeppnisaðilar noti önnur forrit við að veita sína þjónustu í gegnum kerfin sem eru ómissandi.
- Þau mega ekki afla tölfræðilegra gagna um notkun innan kerfanna til að nota í eigin viðskiptatilgangi, nema að upplýsts samþykkis hafi verið aflað.
Þessi lagasetning á að tryggja að neytendur geti valið um þær leiðir sem þeir vilja við notkun ómissandi kerfa, hafi stjórn á gögnum sínum og upplýsingum, meðal annars hvernig þær eru notaðar í annarri þjónustu. Þá er reglunum ætlað að tryggja órofna þjónustumöguleika í ómissandi kerfum, óháð einstaka forritum og koma í veg fyrir að einungis sé hægt að komast inn á ómissandi þjónustu eftir fyrirfram ákveðnum leiðum og forritum. Með þessu á að vera hægt að tryggja óbjagaðar upplýsingar við notkun á þjónustu og að hægt sé að hafa fulla stjórn á auglýsingum.
Afleiðing af þessum reglum fyrir markaðsaðila, er að þeir sem bjóða upp á forrit, („Apps“), eru óbundnir því að bjóða þau til sölu í gegnum ákveðin svæði á netinu, („Appstores“). Þá er stórfyrirtækjunum óheimilt að nýta gögn og upplýsingar sem verða til við notkun á forritum í þeirra kerfum í eigin þágu án heimildar. Einnig á aðgangur neytenda og fyrirtækja að eigin gögnum að vera ótakmarkaður og gefa möguleika á því að þróa þjónustu nánar í gegnum kerfin án þess að það leiði til kostnaðar fyrir þau. Eftir setningu reglnanna á ekki að vera hægt að útiloka fyrirtæki eða forrit með tæknilegum eða fjárhagslegum aðgangshindrunum. Þá eiga stórfyrirtækin ekki að geta notað sín kerfi til að hampa eigin þjónustuframboði umfram framboð annarra innan kerfanna.
Það verður athyglisvert að fylgjast með þróuninni hér á Íslandi hjá framsæknum fyrirtækjum og hvernig þeim tekst að lifa með þeim skyldum sem lagðar eru á þau í 11. gr. samkeppnislaganna sem og Evrópureglum um stóru tæknifyrirtækin.
Framkvæmdastjórnin er í sífellu að endurskoða reglurnar og uppfæra lista yfir þá sem teljast til stórfyrirtækja („Gatekeepers“). Brot gegn þessum reglum geta leitt til sektargerða, líkt og brot á samkeppnisreglunum, og þær geta numið allt að 10% af veltu fyrirtækjanna á ársgrundvelli og jafnvel 20% ef brotin eru ítrekuð. Þá er einnig að finna viðurlagaákvæði sem heimila sektir sem geta numið allt að 5% af daglegri veltu.
Þótt ekki sé í fljótu bragði að finna slík stórfyrirtæki á tæknisviðinu á Íslandi sem geta nú fallið undir skilgreininguna á „Gatekeepers“, er það samt sem áður mikilvægt fyrir fyrirtæki sem hafa þróað þjónustu sem er markaðsráðandi eða eru á góðri leið með að verða það, að gefa þessum reglum gaum. Það má ætla að sams konar viðmið komi til skoðunar við mat á hegðun þeirra á grundvelli 11. gr. samkeppnislaga.
Ætla má að staða fyrirtækja á markaði fyrir hvers konar kerfi og internetþjónustur kunni að breytast hratt eftir því sem tækni vindur fram og því geta nýsköpunarfyrirtæki eða fyrirtæki sem bjóða upp á snjallar lausnir fyrir notendur, hæglega komist í þá stöðu að vera markaðsráðandi jafnvel þótt þau séu ekki stór, eða sérstaklega fjársterk. Það verður athyglisvert að fylgjast með þróuninni hér á Íslandi hjá framsæknum fyrirtækjum og hvernig þeim tekst að lifa með þeim skyldum sem lagðar eru á þau í 11. gr. samkeppnislaganna sem og Evrópureglum um stóru tæknifyrirtækin.
Höfundur er lögmaður og einn eigenda á LOGOS. Greinin er birt í tilefni samkeppnisréttarviku lögmannsstofunnar.
[1] Regulation (EU) 2022/1925 of the European Parliament and of the Council of 14 September 2022 on contestable and fair markets in the digital sector and amending Directives (EU) 2019/1937 and (EU) 2020/1828 (Digital Markets Act) (Text with EEA relevance).