„Við erum að komast niður í Skaftholtsréttir,“ segir Guðmundur. Hann er á hestbaki eins og allir rekstrarmenn í þessum tiltekna rekstri. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis var staddur í Þjórsárdal og myndaði það helsta sem fyrir augu bar.
„Við erum svona 25 fjallmenn að reka og svo kemur ósköp af liði á móti og hjálpar okkur,“ segir Guðmundur en reksturinn var við að ná hámarki þegar blaðamaður náði í hann.
Guðmundur fjallkóngur telur að féð telji um sextán hundruð en hann ætti að vera öllum hnútum kunnugur, hefur verið fjallkóngur frá 2018.
„Jú, ég ætti að vera það. En það er fullt af góðu fólki með mér þannig að þetta gengur allt.“
Guðmundur telur að réttir hljóti að teljast hápunkturinn á bústörfum. „Og svo er bara upp með pelana og fjörið,“ sagði Guðmundur og þar með var það samtal búið. Við skulum leyfa myndunum að tala sínu máli: