Logi Tómasson eða Luigi hefur staðið í stórræðum upp á síðkastið þar sem hann fótar sig sem atvinnumaður í knattspyrnu með Stromsgodset í Noregi. Hann er nýkominn aftur á þær slóðir eftir að hafa leikið með íslenska landsliðinu í nýafstöðnum landsliðsglugga og tók meðal annars þátt í sigri liðsins á Svartfjallalandi á Laugardalsvelli. Loga hefur gengið afspyrnuvel með liði sínu í Drammen og er þar fastur fyrir í byrjunarliðinu.
Logi hefur í hina röndina gælt við tónlistargyðjuna og þegar skapað sé orðstír í tónlistinni en hann er einn höfunda lagsins Skína sem vann til íslensku tónlistarverðlaunanna sem popplag ársins í fyrra. Logi gefur nú átt glænýtt lag á afmælisdegi sínum og má segja að þar sé hann að hoppa duglega úr sínum þægindahring. Lagið er falleg ballaða um vináttu og kærleika og á bakvið lagið er skemmtileg saga.
Byggt á tilfinningaþrungnu jólakorti
Logi sendi pabba sínum tilfinnaþrungið, fallegt og heiðarlegt jólakort en pabbi hans, Tómas Hermannsson, hefur samið gnótt af tónlist í gegnum tíðina. Þegar Tómas las kortið yfir þá skynjaði hann strax melódíu í textanum og úr varð að þeir feðgar sameinuðust í Drammen, fjárfestu í forláta kassagítar og sömdu lagið saman. Úr varð lagið Vinir.
Ég er svo þakklátur að geta kallað þig besta vin minn. Daglega símtalið okkar er það sem ég hlakka til á hverjum degi. Oftast læturðu mig heyra það en svo lyftirðu mér upp. Ég væri ekki á þessum stað ef það væri ekki fyrir þig. Allir pasta dagarnir og líka dagarnir sem ég efast um mig, þá ertu alltaf með réttu orðin sem halda mér gangandi. 2024 verður okkar ár og ég ætla að vinna í hlutunum sem við tölum um á hverjum degi. Pældu í því að eiga fjögur geggjuð börn! Mottóið okkar út lífið: Þakklæti. - þinn Logi
Feðgarnir fengu Harald V. Sveinbjörnsson til að vinna lagið með þeim en þar bregður einnig fyrir þeim Finni Beck sem leikur á bassa, Hannesi Friðbjarnarsyni sem spilar á trommur og Matthíasi Stefánssyni sem strauk fiðlurnar. Öll önnur hljóðfæri spilar Haraldur á.
Þegar lagið var tilbúið var komið að því að klára sönginn og heimsóttu þá feðgarnir hljóðver í Drammen í Noregi. Á endanum, þrátt fyrir að vera góðir vinir, þá senda þeir feðgar frá sér þrjár útgáfur af laginu, aðallega vegna tónlistarlegs ágreinings. En það er bara af því að vináttan getur verið alls konar. Endurhljóðblöndun lagsins var í höndum Bjarka Ómarssonar (Bomarz).