Þetta kom fram í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2. Þar rakti formaður Íslenska flugsögufélagsins, Sigurjón Valsson, sérkennileg örlög flugvélar sem skipar þann merka sess í flugsögunni að vera fyrsta einkaflugvélin á Íslandi.

Það var Albert Jóhannesson, bílstjóri á Vífilsstöðum, sem keypti flugvélina til landsins frá Bandaríkjunum. Hún var einshreyfils af gerðinni Irwin Meteorplane. Aðeins var sæti fyrir einn flugmann um borð en engan farþega.
Í samantekt Arngríms Sigurðssonar í tímaritinu Æskunni árið 1969 kemur fram að flugvélin hafi verið smíðuð í Kaliforníu árið 1928 en Albert pantað hana í júní 1929. Ári síðar hafi hún komið til Íslands með skipi um Kaupmannahöfn þann 10. júní 1930.
Sigurjón segir að íslenskur flugmaður, Helgi Eyjólfsson, sem lært hafði að fljúga í Ameríku, hafi flogið fyrstu ferðirnar. Flugvélin hafi hins vegar ekki reynst vel. Þetta hafi verið hálfmislukkað ævintýri.

Flugsögufélagið varðveitir hreyfillinn úr Vífilsstaðavélinni og Sigurjón lýsir því hvernig það kom til að Pétur Símonarson, bóndi í Vatnskoti í Þingvallasveit, eignaðist flugvélina og sá þau einu not að breyta henni í vélsleða. Sagt er að sleðinn hafi náð 200 kílómetra hraða.
Flugsögumenn voru hins vegar forvitnir um afdrif flugvélarinnar á Þingvöllum. Í árdaga flugsögufélagsins efndu þeir til leiðangurs í Vatnskot og hófu uppgröft í fjárhústóftinni. Í þessu myndskeiði úr þættinum má sjá hvað þeir fundu:
Næsti þáttur Flugþjóðarinnar næstkomandi mánudagskvöld fjallar um sögu Flugfélags Íslands frá 1937 til 1973, er félagið sameinaðist Loftleiðum með stofnun Flugleiða.