Íslenski boltinn

Ó­boðinn gestur truflaði leik í Lengju­­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hundurinn hljóp nokkra spretti um völlinn.
Hundurinn hljóp nokkra spretti um völlinn. Skjáskot

Lið Gróttu og Fjölnis mættust í Lengjudeildinni í knattspyrnu á Seltjarnarnesi í dag. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið en töluverða athygli vakti þegar óboðinn gestur varð til þess að stöðva þurfti leik um stundarsakir.

Grótta vann mikilvægan sigur á Fjölni í Lengjudeildinni í knattspyrnu í dag og hélt þar með vonum sínum um að halda sæti sínu í deildinni á lífi. Fjölnir varð hins vegar af mikilvægum stigum í toppbaráttu Lengjudeildarinnar en liðið er nú í 2. -3. sæti deildarinnar.

Skondið atvik varð í leiknum í dag. Um miðjan síðari hálfleikinn varð að stöðva leikinn um stundarsakir þar sem óboðinn gestur hafði hlaupið inn á völlinn og neitaði að fara útaf.

Um var að ræða hund sem sloppið hafði frá eiganda sínum og hljóp afar sáttur um völlinn á meðan leikmenn reyndu að ná honum útaf.

Dágóða stund tók að ná hundinum af velli og átti hann nokkra góða spretti upp kantana áður en hann hljóp upp brekku við völlinn á Seltjarnarnesi. Þá var hægt að halda leik áfram og virðist sem innkoma hundsins knáa hafi haft góð áhrif á leikmenn Gróttu sem skoruðu sigurmarkið í leiknum fjórum mínútum síðar.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×