Enski boltinn

Lið Willums og Al­fons sló met í eyðslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted ásamt Christoph Klarer eftir leik Birmingham í haust. Þeir eru þrír af sextán nýjum leikmönnum liðsins.
Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted ásamt Christoph Klarer eftir leik Birmingham í haust. Þeir eru þrír af sextán nýjum leikmönnum liðsins. Getty/Morgan Harlow

Íslensku landsliðsmennirnir Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted gengu báðir til liðs við Birmingham City í sumar en æskuvinirnir eru langt frá því að vera eina fjárfesting félagsins í ár.

Birmingham City sló eyðslumetið í ensku C-deildinni á lokadegi gluggans þegar það gekk frá kaupunum framherjanum Jay Stansfield frá Fulham.

Stansfield spilaði með félaginu á láni á síðustu leiktíð og skoraði þá 12 mörk í 43 leikjum.

Forráðamenn Birmingham borga Lundúnafélaginu tíu milljónir punda fyrir leikmanninn og við bætast síðan bónusgreiðslur komist liðið upp í ensku úrvalsdeildina.

Gamla metið var talið vera þegar Sunderland borgaði Wigan Athletic fjórar milljónir punda fyrir Will Grigg fyrir fimm árum.

BBC fjallar um þetta en bendir á það að metið hafi hugsanlega fallið fyrr í sumar þegar Birmingham keypti Willum Þór og varnarmanninn Christoph Klare fyrir í kringum fjórar milljónir punda hvorn. Kaupverð þeirra var ekki gefið upp. Willum kom frá hollenska félaginu Go Ahead Eagles.

Birmingham hefur eytt meira en 25 milljónum punda í leikmenn í sumar og ætlar að gera allt til að komast sem fyrst í deild þeirra bestu. Alls hafa sextán leikmenn gengið til liðs við félagið fyrir tímabilið.

Bandarísku eigendur félagsins eru tilbúnir að setja pening í liðið en einn af þeim er ameríska fótboltagoðsögnin Tom Brady.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×