Enski boltinn

Vill að stuðnings­menn United syngi um sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham klæddi sig aftur í Manchester United búninginn í góðgerðaleik árið 2019.
David Beckham klæddi sig aftur í Manchester United búninginn í góðgerðaleik árið 2019. Getty/Matthew Ashton

David Beckham á þá ósk heitasta að heyra aftur söngva um sig þegar hann horfir á leiki með Manchester United.

Beckham ræddi þessa ósk sína í viðtali í Youtube þættinum First We Feast.

„Þegar ég horfi á United spila í sjónvarpinu þá heyri ég stuðningsmenn United syngja söngva um þá Eric Cantona, Bryan Robson og Roy Keane,“ sagði Beckham.

„Ég heyri eiginlega aldrei: Það er bara einn David Beckham. Ég vildi óska þess að heyra það aftur. Þannig að ef stuðningsmenn United eru að hlusta: Gerið þetta fyrir mig,“ sagði Beckham.

Beckham er nú forseti og meðeigandi bandaríska liðsins Inter Miami. Hann er mikið upptekinn hinum megin við Atlantshafið og mætir því sjaldan á leiki á Olf Trafford. Hann fylgist aftur á móti vel með liðinu í sjónvarpinu.

Beckham var leikmaður Manchester United í tólf ár, fyrst í unglingaliðunum frá 1991 til 1994 og svo sem leikmaður aðalliðsins frá 1992 til 2003.

Beckham skoraði alls 85 mörk og gaf 121 stoðsendingu í 390 leikjum með Manchester United í öllum keppnum. Hann varð sex sinnum Englandsmeistari á átta fullum tímabilum sínum með félaginu frá 1995-96 til 2002-03.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×