Mörk Emilíu komu snemma leiks, á 2. og 9. mínútu. Gestirnir frá Bröndby minnkuðu svo muninn á 36. mínútu en rétt fyrir hálfleik komst Nordsjælland 3-1 yfir þökk sé Ölmu Aagard.
Sofie Thrane Hornemann minnkaði muninn í 3-2 á 60. mínútu en þar við sat og Nordsjælland fagnaði sigri.
Hafrún Rakel Halldórsdóttir var í byrjunarliði Bröndby en fór af velli á 60. mínútu. Emilía var svo tekin af velli tíu mínútum síðar.
Nordsjælland situr ósigrað í efsta sæti deildarinnar eftir fjórar umferðir. Bröndby hefur unnið einn leik og gert eitt jafntefli og situr í 5. sætinu.
Liðin voru í efstu tveimur sætunum í fyrra og mættust í bikarúrslitaleiknum.
Emilía og Alma eru markahæstar í deildinni, báðar með þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjunum.