Íslenski boltinn

Aftur­elding sektað vegna ummæla: „Ertu fokking þroskaheftur?“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leikmenn Aftureldingar.
Leikmenn Aftureldingar. Vísir/Hulda Margrét

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur sektað Aftureldingu um 25 þúsund krónur vegna framkomu stjórnarmanns félagsins í garð dómara leiks liðsins við Gróttu í Lengjudeild kvenna.

Lesa má úrskurð aga- og úrskurðarnefndar á heimasíðu KSÍ en vakin var athygli á nokkrum úrskurðum frá undanförnum mánuðum á heimasíðu sambandsins í dag. Leikurinn fór fram í maí síðastliðnum.

Í greinargerð Aftureldingar vegna málsins eru nokkur atriði í skýrslu dómara sögð ekki standast skoðun. Aga- og úrskurðarnefnd ákvað aftur á móti að sekta Aftureldingu vegna málsins.

Ásmundur Þór Sveinsson skilaði inn skýrslunni.Vísir/Hulda Margrét

Ásmundur Þór Sveinsson, dómari leiksins, lýsti atburðunum á eftirfarandi hátt í skýrslu sinni eftir leik, sem lögð var á borð aga- og úrskurðarnefndar:

„Eftir leik í gærkvöldi gekk ég frá búningsklefa á leið heim. Fyrir utan búningsklefann á ganginum stóð þjálfari Aftureldingar sem spurðist fyrir um víti sem ég dæmdi í leiknum. Ég útskýrði ákvörðun mína sem hann kvaðst ósammála eftir að hafa farið yfir myndbandsupptöku. Ég sagði honum að ég gæti ekkert útskýrt nema hvað ég sá á þeirri stundu sem ég ákveð að dæma víti. Samskiptin við þjálfara Aftureldingar voru góð og fagmannleg,“ segir í skýrslu Ásmundar. Í kjölfarið hafi komið að honum Sigurbjartur Sigurjónsson, stjórnarmaður hjá knattspyrnudeild Aftureldingar.

„Aftur á móti stendur maður sem sagðist heita Sigurbjartur. Hann var ekki jafn rólegur og talar ítrekað um myndbandsupptöku. Ég segi orðrétt "Mér er skítsama um eitthvað video". Við þetta reiðist hann og segir orðrétt "Ertu fokking þroskaheftur",“ segir í skýrslunni.

„Ég læt vita að ég muni tilkynna þetta til sambandsins sem gerir það að verkum að hann verður ógnandi í hegðun og gerir tilraun til að espa mig upp gegn sér. Hann setur höfuð fram með stíft augnaráð og er háttarfar hans greinilega til þess að ógna. Hann fer svo er er annar aðili sem biður hann að yfirgefa svæðið.“ segir Ásmundur í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×