Fótbolti

Elías hafði betur í fimm marka Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elías Rafn í leik með Midtjylland á dögunum.
Elías Rafn í leik með Midtjylland á dögunum. Jan Christensen / FrontzoneSport via Getty Images

Elías Rafn Ólafsson og félagar hans í Midtjylland unnu sterkan 3-2 sigur er liðið tók á móti Íslendingaliði SønderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Elías var á sínum stað í marki heimamanna og þeir Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason voru í byrjunarliði gestanna.

Það voru gestirnir í SønderjyskE sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Lirim Qamili kom boltanum í netið strax á fjórðu mínútu leiksins áður en Adam Buksa jafnaði metin fyrir heimamenn tíu mínútum síðar.

Mads Agger skoraði hins vegar annað mark SønderjyskE á 33. mínútu og gestirnir leiddu því 2-1 í hálfleik.

Sambíumaðurinn Edward Chilufya og Tékkinn Adam Gabriel sáu hins vegar til þess að það voru heimamenn sem tóku stigin þrjú. Chilufya jafnaði metin fyrir Midtjylland á 56. mínútu áður en Gabriel tryggði liðinu sigur tuttugu mínútum síðar.

Niðurstaðan því 3-2 sigur Midtjylland sem trónir á toppi deildarinnar með 14 stig eftir sex leiki, en nýliðar SønderjyskE sitja í níunda sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×