Fótbolti

Segir AGF allt annað lið eftir að Mikael fór á miðjuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael fagnar ásamt fyrirliðanum Patrick Mortensen.
Mikael fagnar ásamt fyrirliðanum Patrick Mortensen. @agffodbold

David Nielsen segir sína fyrrum lærisveina í AGF vera besta lið Danmerkur um þessar mundir. Helsta ástæðan er sú að Mikael Neville Anderson er kominn á miðja miðjuna eftir að spila úti vinstra megin á síðustu leiktíð.

Hinn 47 ára gamli Nielsen þjálfað Lyngby síðast í Danmörku en hann stýrði AGF frá árinu 2017 til 2022. Hann er litríkur karakter sem situr sjaldnast á skoðunum sínum. 

Eftir öruggan 5-1 sigur AGF á Vejle, þar sem Mikael skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni, sagði Nielsen einfaldlega að hans fyrrum lið væri besta lið deildarinnar um þessar mundir. Ástæðan er taktísk breyting milli tímabila.

Nielsen var sérfræðingur í setti hjá TV 2 fyrir leik AGF og Vejle. Eftir leik hrósaði hann Mikael í hástert og sagði leik liðsins allt annan í dag en á síðustu leiktíð.

„AGF hrífur mann í dag og það er aðeins ein breyting sem gerir það að verkum. Sú breyting felst í því að Mikael Anderson var færður af vinstri vængnum inn á miðja miðjuna.“ 

AGF er í 4. sæti deildarinnar með 10 stig eftir fimm leiki með markatöluna 13-5. Sem stendur hefur ekkert lið borið af hvað varðar stigasöfnun en Silkeborg er á toppnum með 12 stig, FC Kaupmannahöfn og Midtjylland eru með stigi minna og Bröndby er með 10 stig líkt og AGF.

Hinn 26 ára gamli Mikael hefur farið gríðarlega vel af stað en eftir fimm leiki hefur hann gefið þrjár stoðsendingar og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×