Khelif varð Ólympíumeistari í 66 kg flokki fyrir viku. Mikil umræða skapaðist um þátttöku hennar en sem kunnugt er var henni meinað að taka þátt á heimsmeistaramótinu í fyrra þar sem hún stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur HM. IBA kemur hins vegar ekkert lengur að hnefaleikakeppninni á Ólympíuleikunum og þar mátti Khelif keppa.
Margir heimsþekktir einstaklingar tjáðu sig um Khelif og þátttöku hennar í kvennaflokki. Meðal þeirra voru J.K. Rowling og Elon Musk. Khelif hefur höfðað mál gegn þeim báðum sem og öðrum vegna hatursorðræðu og netníðs.
Khelif hefur nú tjáð sig um hvernig henni leið meðan stormurinn vegna þátttöku hennar á Ólympíuleikunum stóð yfir.
„Strax eftir fyrsta sigurinn minn á Ólympíuleikunum spruttu upp mikil læti, meðal annars frá stjórnmálamönnum, íþróttafólki og jafnvel listamönnum og ofurstjörnum,“ sagði Khelif.
„Elon Tusk, Donald Trump, þetta hafði áhrif á mig ef ég á að vera hreinskilin. Þetta tók mikið á mig og særði mig. Ég get ekki lýst því hversu hrædd ég var. Ég var smeyk en guði sé lof komst ég í gegnum þetta, þökk sé sálfræðingunum sem aðstoðuðu mig á þessum tíma. Hvað get ég sagt um þennan tíma? Hann var mjög erfiður. Ég gat ekki beðið eftir því að þessu linnti. Staðan var mjög ógnvekjandi.“
Khelif kvaðst þakklát fyrir stuðninginn heiman frá á meðan á öllum látunum stóð.
„Þökk sé guði, þekktu allir í Alsír og Arabaheiminum hina sönnu Imane Khelif, með kvenleika, hugrekki og staðfestu hennar,“ sagði boxarinn.