Íslenski boltinn

Helgi Fróði seldur til Helmond Sport

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi Fróði Ingason í Evrópuleik gegn Linfield fyrr í sumar.
Helgi Fróði Ingason í Evrópuleik gegn Linfield fyrr í sumar. vísir/diego

Stjarnan hefur selt hinn átján ára Helga Fróða Ingason til hollenska B-deildarliðsins Helmond Sport.

Á mánudaginn greindi Guðmundur Benediktsson, stjórnandi Stúkunnar, frá því að Helgi Fróði væri á leið í hollensku B-deildina. Ekki kom þó fram hvaða lið væri að kaupa hann.

Stjarnan hefur nú staðfest að Helgi Fróði hafi verið seldur til Helmond Sport sem endaði í 11. sæti hollensku B-deildarinnar á síðasta tímabili.

„Í tilviki Helga Fróða var mikill áhugi frá félögum í Hollandi og mörg tilboð verið á borðinu í allt sumar og við erum gríðarlega ánægð með þegar leikmenn og fjölskyldur treysta því ferli sem við höfum unnið eftir. Um leið og ég óska nafna mínum til hamingju þá er ég sannfærður að aðrir leikmenn félagsins munu stíga enn frekar upp,“ segir Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni, í yfirlýsingu frá félaginu.

Helgi Fróði lék sautján leiki með Stjörnunni í Bestu deildinni í sumar, skoraði tvö mörk og lagði upp tvö. Hann hefur alls leikið þrjátíu leiki í efstu deild. Þá á hann sex leiki með U-19 ára landsliðinu á ferilskránni.

Stjarnan er í 7. sæti Bestu deildarinnar með 26 stig eftir átján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×