Lífið

„Við eigum ekki bara að hvíla í friði þegar við erum dauð“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Friðrik Ómar Hjörleifsson birti einlæga færslu um hinsegin vegferð sína á Instagram.
Friðrik Ómar Hjörleifsson birti einlæga færslu um hinsegin vegferð sína á Instagram. Vísir/Vilhelm

„Ég vona að þau ykkar sem eru hinsegin en hafa ekki tekið skrefið finni kjark og þor sem fyrst til að lifa í frelsi og að hátíð eins og Hinsegin dagar fylli ykkur af eldmóð,“ skrifar ástsæli tónlistarmaðurinn og skemmtikrafturinn Friðrik Ómar Hjörleifsson í einlægri og hjartnæmri færslu á Instagram.

Færsluna birti Friðrik Ómar á laugardaginn ásamt mynd af sér frá æskuheimili sínu. Þar skrifar hann:

„Það er vel við hæfi að líta um öxl og birta mynd við Hjarðarslóð 4d á Dalvík þar sem ég bjó frá sjö ára til tvítugs. Þarna mótaðist maður.

Það hefur að langmestu leyti verið frábært að vera hommi. Ég var orðinn 16 ára þegar ég vissi það en kom í raun ekki út af alvöru fyrr en 10 árum síðar. Ég var bara ekki tilbúinn. Ég hefði sennilega komið fyrr út ef ég hefði búið í borginni. Hver veit?

En umfram allt vil ég að þið vitið að ég er eins og ég er og þið eruð það líka. Við erum öll hinsegin og alls konar en fyrst og fremst manneskjur. Við eigum ekki bara að hvíla í friði þegar við erum dauð heldur fá að hvíla í friði í okkur sjálfum meðan við erum á lífi, bera höfuðið hátt, vera hugrökk og fylgja hjartanu.

Það á ekkert og engin að standa í vegi fyrir því. Það er mikilvægt að minna á starf Samtakanna ‘78 fyrir þá sem þurfa stuðning, fræðslu eða bara taka samtalið. Ég vona að þau ykkar sem eru hinsegin en hafa ekki tekið skrefið finni kjark og þor sem fyrst til að lifa í frelsi og að hátíð eins og Hinsegin dagar fylli ykkur af eldmóð. Baráttunni er þó hvergi nærri lokið og við munum ALDREI gefast upp. Gleðilega hinsegin daga elsku bræður, systur og allskonar fólk. Við erum lang flottust!“

Friðrik Ómar skein skært í Gleðigöngunni á laugardag þar sem hann gekk með góðum vini sínum Sigga Gunnars. 

Siggi Gunnars og Friðrik Ómar brostu breitt.Viktor Freyr/Vísir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×