Sport

Keppandi á heims­leikunum í Cross­Fit drukknaði í keppni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lazar Dukic.
Lazar Dukic. https://www.instagram.com/lazadjukic

Forsvarsmenn heimsleikana í CrossFit hafa staðfest að keppandi hafi fundist látinn eftir að hafa drukknað í einni af greinum dagsins. Leit hafði staðið yfir eftir að keppandinn skilaði sér ekki yfir endalínuna í sundhluta greinarinnar.

Leikarnir voru að byrja í dag og karlarnir voru að keppa í grein þar sem þarf bæði að hlaupa og synda.

Serbinn Lazar Dukic var á meðal fremstu manna í sundinu, sem fram fór í stóru vatni, en hann skilaði sér aldrei yfir endalínuna.

Um leið og teymi Dukic sá að sinn maður hafði ekki skilað sér úr vatninu var neyðarteymi sent af stað. Bátar leituðu á vatninu og sömuleiðis voru kafarar sendir á svæðið.

Fréttamiðlar í Texas greindu síðan fyrir skömmu frá því að einhver hefði fundist í vatninu og á X-síðu heimsleikanna hefur nú verið staðfest að keppandi hafi látist í sundhluta í keppni dagsins. 

Í yfirlýsingunni kemur fram að forsvarsmenn heimsleikanna muni vinna með yfirvöldum og gera allt til að styðja við fjölskyldu hins látna.

Keppni dagsins hefur verið frestað og óljóst er hvenær hún mun hefjast á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×