Sport

Hundrað grömmum of þung og fær því ekki medalíu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Vinesh Phogat fær ekki medalíu þrátt fyrir að hafa komist í úrslit.
Vinesh Phogat fær ekki medalíu þrátt fyrir að hafa komist í úrslit. Dan Mullan/Getty Images

Vinesh Phogat átti að berjast um gullverðlaun í glímu á Ólympíuleikunum í kvöld en reyndist hundrað grömmum of þung þegar hún var vigtuð í morgun. Hún var samstundis dæmd úr leik og fær ekki silfurverðlaun.

Vinesh komst nokkuð óvænt í úrslit eftir þrjár frábærar glímur í gær. Hún keppir í -50 kg. flokki, var undir því viðmiði í gærmorgun en þegar hún steig aftur á vigtina í morgun reyndist hún hundrað grömmum of þung.

Reglur glímukeppninnar eru ólíkar því sem þekkist úr mörgum öðrum bardagaíþróttum. Þar fá keppendur oft tækifæri til að skera af sér ef þeir reynast of þungir við fyrstu vigtun, ýmsar leiðir eru til þess, sú algengasta að svitna vatnsþyngd burt í gufubaði og sumir ganga meira að segja svo langt að klippa af sér hárið.

Vinesh fékk hins vegar ekki tækifæri til þess heldur var hún sjálfkrafa dæmd úr leik á Ólympíuleikunum, sem þýðir að hún fær ekki einu sinni silfurmedalíu.

Yusneylys Guzman mun keppa í hennar stað um gullverðlaunin, gegn Söruh Hildebrandt.

„Reglur eru reglur. Ég finn til með Vinesh og skil vonbrigðin vel en ef við leyfum þessi hundrað grömm þyrftum við næst að leyfa tvö hundruð grömm. Þetta tæki aldrei enda,“ sagði Nenad Lalovic sem situr í Ólympíunefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×