Sport

Biles lauk leik með silfri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles (silfur), Rebeca Andrade (gull) og Jordan Chiles (brons) á verðlaunapallinum.
Simone Biles (silfur), Rebeca Andrade (gull) og Jordan Chiles (brons) á verðlaunapallinum. getty/Jamie Squire

Simone Biles lauk keppni á Ólympíuleikunum með því að vinna til silfurverðlauna á gólfi. Rebeca Andrade frá Brasilíu stóð uppi sem sigurvegari.

Andrade gerði sínar æfingar á undan Biles og fékk 14.166 í einkunn fyrir þær. Pressan var því talsverð á þeirri bandarísku áður en hún framkvæmdi sínar æfingar.

Biles gerði mjög erfiðar æfingar en steig tvisvar út af sem reyndist dýrt. Hún fékk 14.133 í einkunn og varð að gera sér silfurverðlaunin að góðu.

Þetta voru fjórðu verðlaun Biles á þessum Ólympíuleikum og þau elleftu í heildina. Hún hefur unnið sjö gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun.

Andrade vann gull í stökki í Tókýó fyrir þremur árum og bætti öðrum gullverðlaunum í safnið í dag. Hún hefur alls unnið sex verðlaun á Ólympíuleikum.

Ana Barbosu frá Rúmeníu hélt að hún hefði unnið brons fyrir gólfæfingar sínar í dag en eftir að Bandaríkin áfrýjuðu einkunn Jordans Chiles datt hún niður í 4. sætið. Chiles fékk bronsið með 13.766 í einkunn.


Tengdar fréttir

Biles komst ekki á pall

Simone Biles vann ekki til verðlauna í keppni á jafnvægisslá á Ólympíuleikunum í París í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×