Leikurinn endaði með 4-4 jafntefli en Feyenoord vann 4-2 í vítakeppni.
Þetta var fyrsti leikur Feyenoord síðan að Arne Slot hætti með liðið og tók við enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool. Liðið vann því titil í fyrsta leiknum án hans.
Í meistarakeppninni í Hollandi er keppt um Johan Cruyff skjöldinn og þetta er í fyrsta sinn í sex ár sem Feyenoord vinnur hann.
Feyenoord varð bikarmeistari undir stjórn Slot í fyrra en PSV varð hollenskur meistari.
Átta mörk voru skoruð í leiknum sjálfum þar sem Feyenoord komst þrisvar sinnum yfir eða í 2-1, 3-2 og 4-3. PSV jafnaði í öll skiptin þar af kom fjórða markið tíu mínútum fyrir leikslok.
Santiago Gimenez skoraði úr tveimur vítaspyrnum fyrir Feyenoord en hin mörkin skoruðu Bart Nieuwkoop og Antoni Milambo.
Luuk de Jong skoraði tvö mörk fyrir PSV en hin mörkin skoruðu þeir Noa Lang og Guus Til.
Lutsharel Geertruida, Ayase Ueda, David Hancko og Luka Ivanusec skoruðu úr öllum fjórum spyrnum Feyenoord í vítakeppninni en markvörður liðsins Timon Wellenreuther varði frá Johan Bakayoko og PSV leikmaðurinn Guus Til hitti ekki markið.
Ricardo Pepi og Malik Tillman skoruðu úr sínum vítaspyrnum en það var ekki nóg.
🔥🔴⚪️ 𝙁𝙀𝙔𝙀𝙉𝙊𝙊𝙍𝘿 wint de Johan Cruijff Schaal! 🏆✅#psvfey pic.twitter.com/cmUF4yWFeQ
— ESPN NL (@ESPNnl) August 4, 2024