Sport

Vann Ólympíugull og fékk bón­orð strax í kjöl­farið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liu Yuchen fór niður á skeljarnar og bað Ya Qiong Huang að giftast sér. Hún var nýbúin að vinna gull á Ólympíuleikum.
Liu Yuchen fór niður á skeljarnar og bað Ya Qiong Huang að giftast sér. Hún var nýbúin að vinna gull á Ólympíuleikum. Getty/Julian Finney

Huang Ya Qiong varð Ólympíumeistari í tvenndarleik í badminton á leikunum í París og einhverjir halda örugglega að dagurinn hennar hafi ekki getað orðið betri. Kærastinn hennar sá þó til þess að hann yrði miklu betri.

Ya Qiong vann gullið með liðsfélaga sínum Si Wei Zheng í tvenndarleik eftir öruggan sigur á kóreska parinu Kim Won-ho og Jeong Na-eun í úrslitaleiknum, 21-8 og 21-11.

Strax eftir verðlaunaafhendinguna þá fór kærasti hennar, Liu Yuchen, niður á hnén, tók trúlofunarhring úr vasanum og bað hennar.

Liu Yuchen er sjálfur í Ólympíuliði Kína í Badminton en hann keppir í tvíliðaleik og vann silfur á síðustu Ólympíuleikum í Tókýó.

Ya Qiong trúði þessu varla enda tímapunkturinn mjög sérstakur og hún enn að jafna sig eftir að hafa náð einum af hápunktum ferilsins.

Ya Qiong sagði samt auðvitað já og ljósmyndararnir hópuðust að og mynduðu þau í bak og fyrir. Ya Qiong er þrítug en Liu Yuchen er 29 ára gamall.

Liu Yuchen vinnur sjálfur ekki verðlaun á þessum leikum því hann og félagi hans komust ekki í átta manna úrslit í tvíliðaleiknum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×