Fótbolti

Atlético Madrid kaupir norskan fram­herja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Sörloth var einu marki frá því að verða markakóngur spænsku deildarinnar á síðustu leiktíð.
Alexander Sörloth var einu marki frá því að verða markakóngur spænsku deildarinnar á síðustu leiktíð. Getty/Fran Santiago

Norski landsliðsmaðurinn Alexander Sörloth er kominn til spænska stórliðsins Atletico Madrid sem kaupir hann frá Villarreal.

Atletico Madrid borgar Villarreal 32 milljónir evra fyrir leikmanninn eða 4,8 milljarða íslenskra króna. Sörloth skrifar undir fjögurra ára samning eða til ársins 2028.

Norski knattspyrnusérfræðingurinn Petter Veland er á því að þetta séu þriðju stærstu félagsskipti hjá norskum knattspyrnumanni á eftir félagsskiptum Erling Braut Haaland til Manchester City og Martin Ødegaard til Arsenal.

Sörloth spilaði bara eitt tímabil með Villarreal en það var eftirminnilegt. Hann skoraði 23 mörk í 34 leikjum og varð næstamarkahæsti maður spænsku deildarinnar.

Sörloth skoraði meðal annars fernu í 4-4 jafntefli á móti Real Madrid sem á örugglega stóran þátt í áhuga Atletico manna á honum. Það ætti líka að skila honum vinsældum hjá stuðningsmönnum Atletico.

Þetta verður níunda félagið á ferlinum hjá þessum 28 ára gamla leikmanni sem hefur spilað í Hollandi, Danmörku, Englandi, Belgíu, Tyrklandi, Þýskalandi og Spáni síðan hann yfirgaf Rosenborg árið 2016.

Hann hefur skorað 18 mörk í 53 landsleikjum fyrir Noreg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×