Sport

Komst í úr­slit á ÓL á brákuðum ökkla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angelina Topic frá Serbíu fær hér ráð frá þjálfara sínum.
Angelina Topic frá Serbíu fær hér ráð frá þjálfara sínum. Getty/Artur Widak

Serbneski hástökkvarinn Angelina Topic upplifði eina af martröðum íþróttafólks þegar hún meiddist í upphitun fyrir keppni á Ólympíuleikunum.

Topic tognaði greinilega illa á hægri fæti í upphitun fyrir undankeppni hástökksins í gær. Sem betur fer þá stekkur hún upp á vinstri fæti.

Hún var augljóslega sárþjáð en ákvað að harka af sér og reyna allt til að komast í úrslitin.

Henni tókst það með því að fara yfir 1,92 metra í þriðju tilraun og rétt skreið með því inn í úrslitin.

Alls stökk hún níu sinnum og komst yfir í síðustu tilraun við bæði 1,88 metra og 1,92 metra.

Hin nítján ára gamla Topic vann silfur á Evrópumótinu í Róm fyrr í sumar en var að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum.

Eftir keppnina voru meiðslin skoðuð betur og þá fékk hún slæmar fréttir.

„Því miður þá mun ég ekki keppa meira á þessum Ólympíuleikum. Eftir myndatöku þá kom í ljós að þetta voru alvarlegri meiðsli en við héldum. Það er sprunga í beini í hægri ökklanum og það er því ekki möguleiki fyrir mig að keppa í úrslitunum á sunnudaginn,“ skrifaði Topic á samfélagsmiðla.

„Ég trúði því virkilega, þrátt fyrir allt, að gæti keppt aftur í úrslitunum. Ég gaf því allt mitt til að komast þangað en það lítur út fyrir að þetta átti ekki gerast fyrir mig að þessu sinni. Sjáumst fljótlega,“ skrifaði Topic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×