Sport

Pabbinn lést á leiðinni að horfa á son sinn keppa á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksi Leppä hefur verið sigursæll á heimsmeistaramótum en þarf núna að keppa á Ólympíuleikunum undir mjög erfiðum kringumstæðum.
Aleksi Leppä hefur verið sigursæll á heimsmeistaramótum en þarf núna að keppa á Ólympíuleikunum undir mjög erfiðum kringumstæðum. @rifleteamfinland

Skotíþróttamaðurinn Aleksi Leppä á að keppa á Ólympíuleikunum í París í vikunni en hann fékk hræðilegar fréttir um helgina.

Faðir hans lést þá á leiðinni til Parísar þar sem hann ætlaði að sjá son sinn keppa á leikunum.

Marko Leppä veiktist í flugvélinni til Parísar og dó. Það var einn af draumum hans að sjá son sinn keppa á Ólympíuleikum. Því miður verður ekkert að því.

„Þetta var mikið sjokk. Ég hef aldrei áður lent í einhverju eins og þessu,“ sagði finnski liðstjórinn Leena Paavolainen við blaðið Iltalehti.

Marko Leppä hafði sjálfur verið skotþjálfari og þjálfaði meðal annars son sinn. Hann var mjög virtur í finnskum skotíþróttum.

Sonur hans Aleksi, sem er 29 ára gamall, hefur unnið tvenn gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun á heimsmeistaramótum. Hann ætlar að keppa þrátt fyrir áfallið.

„Aleksi vill keppa. Hann og fjölskylda hans biður um frið svo hann geti einbeitt sér að Ólympíuleikunum,“ sagði Paavolainen.

Aleksi hefur fengið fullan stuðning frá finnska sambandinu og hefur einig rætt við sálfræðing finnska hópsins.

„Þessar fréttir hafa verið áfall fyrir alla í okkar hóp. Þetta er óheppilegt og mjög sorglegt,“ sagði Paavolainen.

Aleksi Leppä keppir með riffli af 50 metra færi. Hann keppir því ekki við okkar mann, Hákon Þór Svavarsson, sem keppir í haglabyssuskotfimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×