Fótbolti

FIFA hefur rann­sókn á rasískum söngvum Argentínu­manna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Skjáskot af myndbandi Enzo þar sem þeir argentínsku sungu rasíska söngva um hörunddökka leikmenn Frakka.
Skjáskot af myndbandi Enzo þar sem þeir argentínsku sungu rasíska söngva um hörunddökka leikmenn Frakka. Samsett/Skjáskot/Getty

Í kjölfar kvörtunar franska knattspyrnusambandsins, FFF, hefur Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hafið rannsókn á níðsöngvum leikmanna argentínska karlalandsliðsins í garð þess franska.

Söngvar landsliðsmanna voru birtir af samfélagsmiðlum en þeir sátu saman í rútu eftir að hafa unnið Suður-Ameríkukeppnina, Copa América, á aðfaranótt mánudags.

Enzo Fernández, leikmaður Chelsea, sýndi beint frá söngvunum á Instagram síðu sinni. Chelsea hefur einnig hafið rannsókn og sent frá sér yfirlýsingu þar sem hverskyns mismunun er fordæmd.

Fernández sendi frá sér yfirlýsingu seint í gærkvöld á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann biðst afsökunar. Söngvunum var beint að hörunddökkum leikmönnum franska landsliðsins og vísað uppruna þeirra til Afríku – þeir væru í raun ekki franskir.

Afsökunarbeiðnin sem Enzo Fernandez birti á Instagram í gærkvöld.Skjáskot/Instagram

Frakkar og Argentínumenn hafa eldað saman grátt silfur á síðustu heimsmeistaramótum. Frakkar slógu Argentínumenn út á HM 2018 en þeir argentínsku unnu Frakka í úrslitum á HM í Katar.

Fjölmargir franskir leikmenn hafa tekið illa í söngvana, þar á meðal samherjar Fernández hjá Chelsea sem hættu að fylgja honum á samfélagsmiðlum. Wesley Fofana fordæmdi liðsfélaga sinn á samfélagsmiðlinum X.

FIFA greindi frá því í morgun að rannsókn væri hafin hjá sambandinu.

„FIFA er meðvitað um myndskeið í dreifingu á samfélagsmiðlum og atvikið er til skoðunar,“ er haft eftir talsmanni FIFA. „FIFA fordæmir hverskyns mismunun, sama úr hvaða átt, hvort sem er frá leikmönnum, stuðningsmönnum eða starfsfólki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×