Fótbolti

Sex leik­menn enduðu markahæstir á Evrópu­mótinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dani Olmo fékk verðlaunin afhent í gær en þeim verður einnig dreift til fimm annarra leikmanna.
Dani Olmo fékk verðlaunin afhent í gær en þeim verður einnig dreift til fimm annarra leikmanna. Matt McNulty - UEFA/UEFA via Getty Images

Keppnin um markahæsta manninn á Evrópumótinu í Þýskalandi endaði jöfn milli sex leikmanna.

Fyrir úrslitaleikinn í gær voru Harry Kane og Dani Olmo jafnir þeim Ivan Schranz, Georges Mikautadze, Jamal Musiala og Cody Gakpo, allir með þrjú mörk.

Hvorki Kane né Olmo komust á blað í gær. Kane átti slakan leik og var skipt útaf eftir sextíu mínútur en Olmo hafði mikil áhrif á niðurstöðuna þegar hann bjargaði á línu og kom í veg fyrir jöfnunarmark Englands undir lokin.

Jude Bellingham og Fabian Ruiz voru báðir með tvö mörk en tókst ekki skora í úrslitaleiknum í gær og blanda sér í baráttuna um gullskóinn.

Harry Kane var niðurlútur við verðlaunaafhendinguna í gær.Stefan Matzke - sampics/Getty Images

Frá 2008 til 2020 var reglan sú að fjöldi stoðsendinga skæri úr um hver ynni gullskóinn en sú regla hefur verið afnumin og því deila þessir sex verðlaununum með sér.

Sú hugmynd var á lofti að deila mörkum með fjölda mínútna sem leikmenn hafa spilað til að úrskurða einn sigurvegara en UEFA staðfesti að verðlaunum yrði deilt jafnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×