Fótbolti

Stelpurnar á Síma­mótinu fengu þakkar­kveðju frá lands­liðs­konunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku landsliðskonurnar þakka áhorfendum fyrir stuðninginn á föstudaginn.
Íslensku landsliðskonurnar þakka áhorfendum fyrir stuðninginn á föstudaginn. Vísir/Anton Brink

Ísland vann 3-0 sigur á stórliði Þýskalands í undankeppni EM á föstudaginn og það fór ekki fram hjá neinum að stelpurnar á Símamóti Breiðabliks fjölmenntu í Laugardalinn.

Hið gríðarlega vinsæla Símamót fer fram um helgina og þrátt fyrir að það væri blautt og svolítið kalt þá létu stelpurnar sig ekki vanta á Laugardalsvöllinn.

Þær hvöttu íslenska landsliðið áfram allan tímann og fengu líka að launum frábæra frammistöðu frá fyrirmyndunum sínum.

Íslenska liðið tryggði sér sæti á EM með sigrinum og verður því með á Evrópumótinu í Sviss næsta sumar. Hver veit nema að stór hluti af ungu stelpunum í stúkunni takist að plata foreldra sína til að eyða sumarfríinu sínu á EM í Sviss eftir ár.

Ungar fótboltastelpur voru mjög áberandi í stúkunni.Vísir/Anton Brink

Íslensku landsliðskonurnar voru líka mjög þakklátar fyrir stuðninginn. Þær sendu stelpunum á Símamótinu sérstaka þakkarkveðju á miðlum Knattspyrnusambandsins.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir og einn markaskoraranna, Ingibjörg Sigurðardóttir, sáu um að senda kveðjuna.

„Hæ stelpur. Takk kærlega fyrir stuðninginn í gær,“ sagði Karólína Lea. „Það var ótrúlega gott að hafa ykkur í stúkunni og við heyrðum í ykkur allan leikinn,“ bætti Glódís Perla við og Ingibjörg endaði kveðjuna: „Gangi ykkur ótrúlega vel í síðustu leikjunum um helgina,“ sagði Ingibjörg en það má sjá kveðjuna hér fyrir neðan.

Þær veifuðu síðan allar þrjár og það er hægt að taka undir þessa kveðju. Stelpurnar okkar stóðu sig frábærlega inn á vellinum en framtíðarstelpurnar okkar í stúkunni áttu líka frábæran dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×