Fótbolti

Messi ætlaði ekki að stela markinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi stýrði skoti liðsfélaga síns í markið. Hann gæti unnið enn einn titilinn með argentínska landsliðinu.
Lionel Messi stýrði skoti liðsfélaga síns í markið. Hann gæti unnið enn einn titilinn með argentínska landsliðinu. Getty/Elsa

Lionel Messi skoraði seinna mark argentínska landsliðsins í sigri á Kanada í undanúrslitaleik Suðurameríkukeppninnar. En stal hann markinu af liðsfélaga sínum?

Messi stýrði þarna skoti Enzo Fernandez í markið. Boltinn var á leiðinni á markið en markvörðurinn sá skotið og skutlaði sér. Einhverjum fannst Messi vera að stela markinu af Chelsea manninum en goðsögnin sagði sína hlið á því eftir leikinn.

„Ég sagði Enzo að það var ekki ætlun mín að taka markið af honum. Ég sá bara markvörðinn skutla sér og boltinn var ekki á mikilli ferð. Vinstri fóturinn fór bara af stað og stýrði boltanum í markið,“ sagði Lionel Messi. Sem betur fer fyrir þá báða var Messi ekki rangstæður.

Þetta var fjórtánda mark Messi í sögu Copa América og 28. markið í síðustu 25 landsleikjum hjá hinum 37 ára gamla Messi.

Messi komst líka upp í annað sætið yfir markahæstu landsliðsleikmenn allra tíma og upp fyrir Íranann Ali Daei. Ronaldo er efstur með 130 landsliðsmörk en Messi er nú kominn með 109.

Markið innsiglaði 2-0 sigur Argentínu á Kanada og liðið mætir Kólumbíu í úrslitaleiknum þar sem Argentínumenn geta unnið þriðja stórmótið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×