Fótbolti

Selma Sól hættir með Nürnberg: „Kemur í ljós á næstu dögum hvert ég fer“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Selma Sól verður í eldlínunni gegn Þjóðverjum á föstudagskvöldið.
Selma Sól verður í eldlínunni gegn Þjóðverjum á föstudagskvöldið. vísir/einar

„Þessi leikur leggst vel í okkur. Við þekkjum þær ágætlega og búnar að spila svolítið oft við þær síðastliðið árið. Við erum bara spenntar fyrir föstudeginum,“ segir landsliðskonan Selma Sól Magnúsdóttir fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvellinum í dag.

Ísland mætir Þjóðverjum í undankeppni EM á föstudagskvöldið. Liðið mætir síðan Pólverjum á þriðjudagskvöldið. Þrjú stig í þessum tveimur leikjum mun skila íslenska liðinu á mótið í Sviss á næsta ári.

„Við verðum að vera rosalega þéttar á móti Þýskalandi og það hefur skilað okkur mestum árangri á móti þeim, þegar við náum að þétta línurnar okkar mjög vel. Svo verðum við að gera okkar allra besta til að reyna setja eitt, tvö mörk.“

Hún segist vera til í það að fá mörg þúsund manns á Laugardalsvöllinn.

„Það væri draumurinn að ná að fylla aðra stúkuna og við værum mjög þakklátar fyrir það“

Selma er leikmaður hjá þýska liðinu Nürnberg sem féll úr efstu deild í vor.

„Þetta endaði ekki alveg eins og maður hafði vonast til en það er bara búið núna og núna er næsta verkefni framundan og það er bara spennandi. Ég verð ekki áfram hjá Nürnberg og það kemur í ljós á næstu dögum hvert ég fer,“ segir Selma sem staðfestir að hún hafi átt í viðræður við nokkur lið.

Klippa: Selma Sól hættir með Nürnberg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×