Innlent

Tengja síðustu 102 þorp landsins

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ríkið ætlar að koma að því að ljúka ljósleiðaravæðingunni á Íslandi með því að tengja 102 litla þéttbýliskjarna um land allt.
Ríkið ætlar að koma að því að ljúka ljósleiðaravæðingunni á Íslandi með því að tengja 102 litla þéttbýliskjarna um land allt. Vísir/Vilhelm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir ríkið munu koma að því að ljósleiðaratengja rúmlega 102 litla þéttbýliskjarna um land allt. Með þessu muni hvert einasta lögheimili á Íslandi vera tengt ljósleiðara og því njóta öflugrar nettengingar.

„Ísland ljóstengt gerði auðvitað ótrúlegar breytingar á ljósleiðaravæðingu á Íslandi en eftir stóðu samt litlir þéttbýlisstaðir um land allt sem og staðir sem eru í kringum 50 til 200 manns og við viljum mæta þessum,“ segir Áslaug Arna en Ísland ljóstengt var tímabundið landsátak stjórnvalda sem hrundið var af stað árið 2017 til uppbyggingar sveitarfélaga á ljósleiðarakerfum í dreifbýli utan markaðssvæða.

Áslaug segir ríkið þegar búið að greina áform fjarskiptafyrirtækjanna og hyggjast bjóða sveitarfélögunum til samninga um að borga úr fjarskiptasjóði fyrir jarðvinnunni þar sem áform um uppbyggingu eru ekki til staðar.

„Þá geta þau gengið vonandi frá restinni og þá getum við tryggt hér 100 prósent ljósleiðaravæðingu á Íslandi,“ segir hún.

Áslaug segist vona að flest sveitarfélög þiggi boð ríkisins.

„Við erum þá að greiða fyrir jarðvinnuframkvæmdina og við erum búin að gera greinargóða vinnu á kostnaði vegna hennar en erum ekki að koma inn´i kostnaðinn við kerfið sjálft. Ég bind vonir við það að flest sveitarfélög þiggi þetta boð,“ segir hún.

Stefnt er að því að hvert einasta heimili á Íslandi verði ljósleiðaratengt árið 2026.

„Þetta er um 450 milljónir króna og er nú þegar fjármagnað af fjarskiptasjóði og úr byggðaáætlun. Við stefnum á 2026 að þá sé 100 prósent lögheimila komin í ljósleiðaravæðinguna,“ segir Áslaug Arna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×