Tíska og hönnun

Alltaf sótt í orku og gleði í klæða­burði

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Lóló Rósenkranz er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Lóló Rósenkranz er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Aðsend

Ofurþjálfarinn og glæsikvendið Lóló Rósenkranz er með einstakan og litríkan stíl sem vekur athygli en appelsínugulur er hennar uppáhalds litur. Lóló er á stöðugri hreyfingu, er með fólk í einkaþjálfun í World Class, starfar sem fararstjóri hjá Úrval útsýn, kennir pílates og skriðsund svo eitthvað sé nefnt og er sömuleiðis dugleg að klæðast skemmtilegum íþróttafatnaði. Lóló er viðmælandi í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Lóló Rósenkranz hefur alltaf sótt í litagleði.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Skemmtilegast við tískuna er fjölbreytileikinn sem gefur öllum færi á að finna eitthvað við sitt hæfi.

Lóló segir fjölbreytileikann það skemmtilegasta við tískuna.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Uppáhaldsflíkin mín á ekkert skylt við tísku en það er íslenski upphluturinn sem ég erfði eftir ömmu mína. 

Mér finnst svo dýrmætt að eiga þennan íslenska þjóðbúning í skápnum þó ég hafi ekki skartað honum oft en ömmustelpan mín Dominique Eva skartaði honum á peysufatadegi Kvennaskólans á síðasta ári og það fyllti mig stolti.

Lóló var fyrirsæta lengi vel og þykir vænt um einkennandi íslenskar flíkur. Hennar uppáhalds flík er íslenski upphluturinn.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Ég er yfirleitt mjög snögg að ákveða hverju ég ætla að klæðast hverju sinni.

Lóló er yfirleitt mjög snögg að finna til föt fyrir daginn en hennar uppáhalds litur er appelsínugulur.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég er mikið fyrir þægilegan og um leið litríkan fatnað sem gefur mér mikla orku og enn meiri gleði. Þannig hefur það alltaf verið og hefur ekki kallað á neinar breytingar.

Lóló hefur alltaf sótt orku og gleði í litríkar flíkur. Hér er hún ásamt sonum sínum Orra og Sindra í World Class Laugum þar sem Lóló þjálfar.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Já ég nýt þess í botn að klæða mig upp þegar við á og skreyta mig mikið.

Lóló nýtur þess í botn að klæða sig upp þegar við á.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Mér finnst mjög gaman að fylgjast með nýjum straumum í tískunni og fæ hugmyndir út frá því sem henta mér.

Lóló þykir gaman að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum tískunnar og fá hugmyndir út frá því sem henta henni.Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Boð og bönn virka ekki. Þetta fer allt eftir smekk og hentugleika hvers og eins.

Lóló segir að boð og bönn virki einfaldlega ekki í tískunni.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Eftirminnilegasta flíkin er íslenskur ofinn appelsínugulur síður kjóll sem ég sýndi á fjölmörgum tískusýningum fyrir útlendinga hérlendis og erlendis.

Ástæðan er gullfallegur kjóll úr íslenskri ull og í uppáhalds litnum mínum en appelsínugulur litur hefur fylgt mér frá því ég var lítil stelpa.

Lóló stórglæsileg sem sýningarstúlka en appelsínugulur hefur alltaf verið hennar litur.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Það hlýtur að vera best að klæða sig eftir tilfinningu og líðan hverju sinni og vera sáttur við sjálfan sig.

Lóló segir að það hljóti að vera best að klæða sig eftir tilfinningu og líðan hverju sinni.Aðsend





Fleiri fréttir

Sjá meira


×