Fótbolti

Eitt af bestu tíma­bilum ís­lenskrar knatt­spyrnu­konu er­lendis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FC Nordsjælland varð danskur meistari í fyrsta sinn og vann báða stóru titlaana í boði. Það var því mikið fagnað hjá Emilíu Kiær Ásgeirsdóttur og félögum.
FC Nordsjælland varð danskur meistari í fyrsta sinn og vann báða stóru titlaana í boði. Það var því mikið fagnað hjá Emilíu Kiær Ásgeirsdóttur og félögum. @fcnordsjaelland

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir kláraði á dögunum frábært tímabil sitt með danska félaginu Nordsjælland.

Emilía Kiær valdi nýverið að spila með íslenska landsliðinu frekar en því danska og lék sinn fyrsta A-landsleik á móti Austurríki á Laugardalsvellinum.

Eftir að hafa klæðst íslensku landsliðstreyjunni í fyrsta sinn þá kórónaði hún síðan tímabilið með því að vinna bæði danska meistaratitilinn og danska bikarmeistaratitilinn með Nordsjælland.

Báðir titlarnir komu í hús eftir æsispennandi Íslendingaslagi á móti Bröndby. Fyrst nægði Nordsjælland jafntefli á útivelli til að tryggja sér meistaratitilinn, sem tókst, og svo vann liðið 2-1 sigur á Bröndby í bikarúrslitaleiknum.

Það sem gerir þetta tímabil hjá Emilíu Kiær að einu af þeim bestu tímabilum hjá íslenskri knattspyrnukonu erlendis er að hún ekki aðeins það að hún sé að vinna tvöfalt með sínu liði.

Hún er að vinna tvöfalt þar sem hún er markahæst í dönsku deildinni með tíu mörk og hún skoraði síðan einnig fyrsta mark liðsins í bikarúrslitaleiknum. Markadrottning, meistari, bikarmeistari og hetja í bikarúrslitaleiknum. Það verður varla mikið betra en það.

Emilía Kiær og liðfélagar hennar voru líka að brjóta blað í sögu félagsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Nordsjælland liðið verður danskur meistari og að sjálfsögðu um leið í fyrsta sinn sem liðið vann tvöfalt. Bikarinn var liðið aftur á móti að vinna annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fimm árum.

Nordsjælland hafði ekki heldur náð að enda í öðru sæti og besti árangurinn fyrir þetta tímabil var þriðja sætið í fyrsta og eina skiptið árið 2020.

Nordsjælland endaði með þessu þriggja ára sigurgöngu HB Køge. Yngri lið félagsins voru líka mjög sigursæl á þessu tímabili og því er framtíðin líka björg. Emilía Kiær sjálf er auk þess bara nítján ára gömul og er því bara rétt að byrja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×