Fótbolti

Roberto Baggio fluttur á spítala eftir inn­brot meðan hann horfði á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Roberto Baggio hitti ítalska landsliðið í æfingabúðum þeirra fyrir EM.
Roberto Baggio hitti ítalska landsliðið í æfingabúðum þeirra fyrir EM. Claudio Villa/Getty Images

Ítalska knattspyrnugoðsögnin Roberto Baggio var fluttur á spítala í gær eftir að hafa orðið fyrir árás af völdum innbrotsþjófa meðan hann horfði á leik Ítalíu og Spánar á Evrópumótinu.

Í það minnsta fimm vopnaðir menn brutu sér leið inn á heimili Baggio, í borginni Vicenza á N-Ítalíu, um klukkan 22:00 að staðartíma (20:00 UTC) í gær þegar hann var að horfa á leik Ítalíu og Spánar þegar atvikið átti sér stað.

Baggio var sleginn í höfuðið með skammbyssuskafti. Hann og fjölskylda hans voru svo læst inni í herbergi meðan þjófarnir gengu ófrjálsri hendi um eigur þeirra. Meðal þess sem þeir tóku voru skartgripir, úr og reiðufé.

Þegar þjófarnir höfðu yfirgefið svæðið braut Baggio niður hurðina herbergisins og hringdi í neyðarlínuna. Hann var fluttur á spítala og sár á höfði hans saumað. Fjölskyldumeðlimir hans hlutu engan líkamlega skaða af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×