Davíð Rúnar Gunnarsson slökkviliðsstjóri Vesturbyggðar segir að þegar tilkynningin barst síðustu nótt hafi verið tilkynn um megna stækju yfir höfninni í Tálknafirði. Þeir hafi svo komist að því að lyktin hafi verið frá frystihúsinu en til þess að komast nær húsinu hafi þurft sérstaka galla. Eiturefnakafarar unnu svo að því í allan dag að reyna að finna lekann.
„Það kemur hvít gufa af ammoníaki. Við sáum þegar við komum inn að þetta er í frystikerfinu þar sem lekur,“ segir Davíð Rúnar í samtali við fréttastofu. Til að reyna að finna upptök lekans hafi þeir reynt að skipta húsinu í smærri einingar.

„Vandamálið er að þú sérð ekki allt sem kemur út og sérð í raun og veru ekki lekann. Það tók svo rosalega langan tíma hjá okkur að skipta húsinu niður í svæði og loka á milli, þar sem hægt var að loka á milli, og sjá hvoru megin lekinn gat verið,“ segir Davíð Rúnar og að leitin hafi farið þannig fram í dag.
Hann segir ammoníak mjög hættulegt efni.

„Þegar þú stendur fyrir utan byrjar þig að svíða í augun og það er erfitt að anda. Það brennir í raun húðina og ef þú færð inn í of mikið þá geturðu hætt að anda og dáið. Það var mjög gott að enginn var að vinna þegar þetta gerðist. Við vitum ekki enn nákvæmlega hvað gerðist og mjög fáir upplifðu einkenni,“ segir Davíð Rúnar.
Hann segir að lekinn hafi verið í húsum þar sem fólk vinnu dags daglega og því hafi tímasetningin verið heppileg. Auk þess hafi vindáttin verið hagstæð og lyktin farið út á haf en ekki í átt að bænum.
„Það er mjög heppilegt,“ segir Davíð Rúnar að lokum.