Fótbolti

Gagn­rýndir fyrir Gul­lit gervið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hollensku stuðningsmennirnir í gervi Ruud Gullit á fyrsta leik Hollendinga á Evrópumótinu.
Hollensku stuðningsmennirnir í gervi Ruud Gullit á fyrsta leik Hollendinga á Evrópumótinu. Getty/Catherine Ivill

Stuðningsmenn hollenska landsliðsins vöktu athygli í sjónvarpsútsendingu frá leik Hollands og Póllands á EM í fótbolta um helgina en margir hafa fordæmi gervi þeirra á samfélagsmiðlum.

Hollensku stuðningsmennirnir völdu það að heiðra minningu hollenska landsliðsins frá 1988 sem er það eina í sögu þjóðarinnar sem hefur unnið stórmót.

Félagarnir klæddust þar með búningi Evrópumeistaraliðsins frá 1988 en það var þó ekki það sem fór fyrir brjóstið á mörgum. Ekki heldur það að þeir væru með svokallaða dreadlocks hárkollu eða yfirvaraskegg.

Það sem hneykslaði fólk var sú staðreynd að þetta voru hvítir menn sem máluðu sig svarta í framan til að líkja sem best eftir Ruud Gullit, fyrirliða hollenska landsliðsins frá 1988.

Svokallað Blackface þykir rasismi af verstu gerð en þetta þekktist í suðurríkjum Bandaríkjanna á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar þegar hvítir leikarar eða söngvarar fóru í gervi svartra.

Gullit gervið hneykslaði því marga sem sáu það á skjánum hjá sér en auðvitað þótti öðrum það sakleysislegt. Það mátti því sjá ýmis viðbrögð við Gullit gervinu en þetta vakti talsverða athygli.

Gervið hafði þó væntanlega ekkert með kynþáttafordóma að gera heldur ætluðu hollensku stuðningsmennirnir eflaust aðeins að heiðra minningu eins besta hollenska fótboltamanns sögunnar.

Ruud Gullit skoraði 17 mörk í 66 landsleikjum frá 1981 til 1994 og eitt af mörkunum kom í úrslitaleik EM árið 1988. Hann tók þá við Evrópubikarnum í leikslok. Hann er þekktastur fyrir tíma sinn hjá AC Milan þar sem hann fékk Gullhnöttinn sem besti leikmaður Evrópu árið 1987.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×