Fótbolti

Mbappé sleppur við að­gerð vegna nefbrotsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé varð fyrir því óláni að nefbrotna i fyrsta leik Frakka á EM 2024.
Kylian Mbappé varð fyrir því óláni að nefbrotna i fyrsta leik Frakka á EM 2024. Getty/Rico Brouwer

Stórstjarna Frakka endaði kvöldið á sjúkrahúsi eftir fyrsta leik franska landsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta í Þýskalandi.

Kylian Mbappé nefbrotnaði í 1-0 sigri á Austurríkismönnum í gærkvöldi. Blóðið fossaði úr nefinu á honum og óttast var að hann þyrfti að gangast undir aðgerð. Slík aðgerð hefði þýtt að hann hefði jafnvel misst af öllu Evrópumótinu eða stórum hluta mótsins.

Philippe Diallo, forseti franska knattspyrnusambandsins, staðfesti það við ESPN að læknaliðið hefði metið það eftir frekari skoðun að Mbappé þyrfti ekki að fara í aðgerð.

Mbappé yfirgaf sjúkrahúsið í Düsseldorf klukkan eitt eftir miðnætti á staðartíma og er kominn aftur til móts við franska liðið.

Næst á dagskrá er að útbúa sérhannaða grímu fyrir hann sem hann spilar með næstu vikurnar.

Það er samt óvíst hvort hann geti spilað næsta leik sem er á móti Hollandi á föstudaginn.

Mbappé skoraði ekki í leiknum en lagði upp markið. Varnarmaður Austurríkis skallaði þá boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf frá franska framherjanum.

Mbappé nefbrotnaði eftir að hafa lent í samstuði við Austurríkismanninn Kevin Danso seint í leiknum.

„Nefið hans lítur illa út. Við verðum bara að bíða og sjá til. Læknaliðið okkar sér um þetta. Þetta voru samt slæmar fréttir fyrir okkur,“ sagði Didier Deschamps, þjálfari Frakka, eftir leikinn.

„Augljóslega er franska landsliðið ekki það sama án hans. Ég vona að hann geti verið með okkur,“ sagði Deschamps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×