Fótbolti

Mbappé með á­kall til kjós­enda í Frakk­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappé hefur áhyggjur af stöðunni í frönskum stjórnmálum.
Kylian Mbappé hefur áhyggjur af stöðunni í frönskum stjórnmálum. AP/Hassan Amma

Kylian Mbappé var pólitískur á blaðamannafundi franska landsliðsins fyrir fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í fótbolta.

Mbappé kallaði þar eftir því að franskir kjósendur styðji ekki öfgaflokka í komandi kosningum og tók þar með undir orð liðfélaga síns Marcus Thuram frá deginum áður.

Thuram hafði lýst yfir áhyggjum sínum af auknu fylgi franska þjóðernisflokksins Rassemblement National sem er mjög hægrisinnaður poppúlistaflokkur.

Kosningar fara fram í Frakklandi í lok júní.

„Ég deili sömu gildum og Marcus. Auðvitað styð ég hann. Hann gekk ekki of langt að mínu mati. Það er málfrelsi og ég fylgi honum í skoðunum,“ sagði Mbappé.

„Við sem franskir ríkisborgarar megum ekki aðskilja okkur frá heiminum í kringum okkur. Við vitum að við erum á mikilvægum stað í sögu okkar þjóðar og í raun í fordæmislausri stöðu. Ég vil því ávarpa frönsku þjóðina. Öfgahópar eru komnir nálægt valdastöðum en við sjálf erum í þeirri stöðu að geta valið framtíð okkar þjóðar,“ sagði Mbappé.

„Ég hvet því unga fólkið okkar til að fara á kjörstað og vona að þau átti sig á alvarleika stöðunnar. Ég vona að ég geti haft einhver áhrif og ég vona að ég verði enn þá stoltur af því að klæðast þessari treyju 7. júlí næstkomandi,“ sagði Mbappé.

Hægri flokkar bættu við sig miklu fylgi í nýafstöðnum Evrópuþingskosningum. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, biðlar til annarra flokka á miðjunni um að mynda bandalag gegn hægriöfgaflokkum í þingkosningum sem hann boðaði til eftir Evrópuþingskosningar.

Fyrsti leikur franska liðsins á mótinu er á móti Austurríki í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×